lilbub2

Fyrir þá sem ekki þekkja köttinn á myndinni er þetta Lil Bub. Lil Bub er óvenjulega í útliti og hefur öðlast heimsfrægð á internetinu. Hún hefur til dæmis 1,9 milljónir aðdáenda á Facebook síðu sinni. Þrátt fyrir að vera orðin fullovaxta líkist Lil Bub enn þá kettlingi. Hún hefur stór augu, stuttar lappir og auka tá á hverjum fæti. Auk þess hangir tungan hennar sífellt út úr munninum.

Vísindamennirnir Danial Ibrahim, Darío G. Lupiáñez og Orsolya Symmons sáu myndband af Lil Bub og vilja nú raðgreina erfðamengi hennar til að skilja ástæður óvenjulegs útlits hennar og þeirra heilsufarsvandamála sem því fylgir. Slíkar rannsóknir eru mjög kostnaðarsamar og er erfitt að fá styrki fyrir verkefnum sem þessu. Safna þarf 6.500 dollurum til að gera raðgreininguna að veruleika og vegna frægðar Lil Bub hefur því markmiði nú þegar verið náð. Vísindamennirnir vona þó að hægt verði að safna meiri pening til að hægt sé að nota þá í að rannsaka aðra sjaldgæfa erfðasjúkdóma í köttum.

Að sögn rannsóknarhópsins eru rannsóknir sem þessar ekki eingöngu gagnlegar til að læra meira um erfðasjúkdóma í köttum heldur líka í öðrum tegundum og mönnum. Spendýr glíma við marga svipaða sjúkdóma og geta niðurstöður rannsókna á dýrum oft varpað ljósi á sjúkdóma manna líka.

Hér að neðan má sjá frekari upplýsingar um verkefnið og hægt er að styrkja það hér.