Mynd: Kimberly’s Pet Taxi and Pet Services
Mynd: Kimberly’s Pet Taxi and Pet Services

Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Þetta gamalgróna orðatiltæki er oft notað í gríni og alvöru um fullorðið fólk sem er orðið þó nokkuð fast í sínum venjum, ef ekki tókst að ala þau upp sem ungviði þá stoðar lítið að reyna það á gamals aldri. En er þessi staðhæfing rétt? Ekki samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var Messerli Research Institute á dögunum.

Í rannsókninni var hópur hunda af tegundinni Border Collie fenginn til að taka nokkurs konar gáfnapróf. Hundunum var skipt í hópa byggt á aldri þeirra. Hundarnir voru allt frá 5 mánaða uppí 13 ára gamlir. Markmið rannsóknarinnar var að skoða getu hundanna til að læra, beita rökhugsun og prófa langtíma minni þeirra og bera saman milli aldurshópa.

Til að rannsaka þetta voru hundunum sýndar myndir á snertiskjá. Í fyrsta prófinu, þar sem hæfni þeirra til að læra var metin, voru hundarnir látnir velja milli tveggja mynda á skjánum. Þegar rétt mynd var valin fengu hundarnir nammi, en voru settir í skammarkrókinn þegar þeir völdu vitlausa mynd. Að meðaltali þurftu eldri hundarnir fleiri ferðir í skammarkrókinn til að læra hvaða myndir voru rangar, miðað við yngri hunda.

Næsta próf, sem miðaði á rökhugsun, fór þannig fram að röngu myndirnar birtust á skjánum í þetta sinn paraðar með nýjum myndum. Nýju myndirnar voru því þær myndir sem hundarnir áttu að velja til að fá verðlaun. Í þetta sinn voru eldri hundarnir fljótari að ná mynstrinu í myndunum og voru þeir að meðaltali líklegri til að velja nýju myndina.

Sex mánuðum eftir að prófin voru framkvæmd, komu hundarnir svo í þriðja og síðasta prófið til að kanna langtímaminni þeirra. Þá voru hundunum aftur sýndar myndirnar og þeir áttu að velja réttu myndina. Hundum á öllum aldri tóks jafn vel að þreyta prófið.

Gamlir hundar eru því ekki ófærir um að læra, þeir taka bara lengri tíma í það en þeir sem yngri eru. Þessi eiginleiki er líklega ástæða þess að gamlir hundar eiga auðveldara með að beita rökhugsun, þar sem þeir hafa fastmótaðri hugmyndir í samanburði við þá yngri.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér rannsóknina betur geta nálgast greinina hér