Mynd: Daves Door Opening
Mynd: Daves Door Opening

Búkhljóð eru af ýmsum toga, mörgum dettur eflaust í hug vindgangur þegar búkhljóð eru nefnd en það eru þó ekki slík búkhljóð sem hér er verið að meina heldur hljóð sem heyrast í höfuðkúpu okkar.

Hópur vísindamanna víða að frá Þýskalandi vinnur nú að því að þróa tækni sem hægt verður að nota í stað hinna hefðbundnu lykilorða eða jafnvel fingrafara. Tæknin byggir á því að höfuðkúpur hvers einstaklings hefur sérstaka eiginleika sem gera henni kleift að gefa frá sér sértæk hljóð sé hún örvuð með ákveðnum hljóðbylgjum.

Hugmyndin er sú að þeir sem nota tæknina geti verið með einhvern hljóðgjafa, t.d. í símanum sínum, sem þeir nota til að koma af stað endurómun í höfuðkúpunni. Lögun höfuðsins, samsetning þess og fleira gerir það að verkum að einstaklingurinn sendir til baka hljóð sem er einkennandi fyrir viðkomandi. Þannig opnar maður tölvupóstinn sinn, heimabankann sinn eða notar þetta jafnvel til að komast inná vinnustaðinn.

Fyrstu tilraunir með tæknina gefa til kynna að hún er mjög nákvæm og greinir hún rétt á milli einstaklinga í 97% tilfella, þó er hún enn á fyrstu stigum. Nokkrar hindranir eru enn í vegi tækninnar, t.d. þarf hljóðgjafinn sem notaður er í upphafi að vera meðfærilegur, nægilega meðfærilegur til að fólk geti tekið hann með sér hvert sem er og hann þarf að vera samræmanlegur á milli tækjabúnaða svo dæmi séu tekin.

Enn þurfum við því að bíða eftir að búkhljóð verði raunhæfur möguleiki fyrir lykilorð, en ef vel tekst til þá mun þetta kerfi líklega vera með því öruggasta sem völ er á.