Margir sem vinna á stórum vinnustöðum kannast við fyrirkomulagið um opin skrifstofurými. Í stað þess að loka 2-4 manneskjur saman í herbergi sem þau geta kallað skrifstofuna sína eru heilu salirnir undirlagðir af skrifborðum, stólum og tilheyrandi búnaði, án þess að nokkrir veggir skilji fólk að.

Þetta fyrirkomulag hefur verið vinsælt meðal stórra fyrirtækja þar sem opin skrifstofurými eru talin breyta hegðun starfsmanna og auka samskipti þeirra á milli. En slíkar kenningar hafa þó lítið verið rannsakaðar, þar til nú.

Rannsókn Ethan S. Bernstein og Stephen Turban sem birtist nýlega í Philosophical Transactions of the Royal Society B ://rstb.royalsocietypublishing.org/content/373/1753/20170239 sýnir að opin skrifstofurými breyti svo sannarlega hegðun starfsmanna en þó ekki á þann hátt sem spáð hefur verið fyrir um.

Fylgst var með völdum einstaklingum innan tveggja fyrirtækja sem hugðust breyta skrifstofuskipulagi sínu í opið rými. Einstaklingarnir sem fylgst var með báru á sér búnað sem skráði hegðun starfsmannanna og las hvenær þeir áttu í samskiptum við annað fólk, augliti til auglitis. Að auki var fylgst með tölvupóstnotkun þeirra sem og notkun samskiptaforrita innan vinnustaðarins. Rannsóknin stóð samtals yfir í 16 vikur, átta vikur fyrir breytingar og átta vikur eftir.

Þegar gögnin voru greind kom í ljós að samskipti starfsmanna breyttust heldur betur eftir að skrifstofurýminu var breytt. Samskipti sem fóru fram augliti til auglitis drógust saman um nær 70% að meðaltali meðan tölvupóstsamskipti og notkun samskiptaforrita á vinnustað jókst um allt að 50% í sumum tilfellum.

Þessar niðurstöður eru ekki beint í samhljómi við þau yfirlýstu markmið sem opin skrifstofurými eiga að skila. Hins vegar er ólíklegt að sú þróun sem nú er að eiga sér stað, með auknu vægi opinna skrifstofurýma, muni stöðvast.

Starfsmenn þurfa sennilega alltaf að læra að vinna við þær aðstæður sem boðið er uppá í hverju fyrirtæki fyrir sig, hvort sem þar er opið eða lokað rými. Auðvitað eru til einstaklingar sem eiga mjög erfitt með að aðlagast öðru hvoru en allt snýst þetta samt auðvitað um að sýna vinnufélögunum varkárni og tillitsemi í samskiptum.