Njoy-ecig

Mynd: Lindsay Fox 

Nýverið komu á markað svokallaðar rafsígarettur. Þær hafa verið markaðssettar sem hollari kostur, samanborið við hefðbundnar reykingar. Þessi markaðssetning hefur þó ekki verið byggð á mörgum og áreiðanlegum rannsóknum, en rafsígarettan inniheldur einnig efni sem gætu verið heilsunni hættuleg.

Hópur vísindamanna við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum setti upp dýratilraun til að meta hvaða áhrif reykur frá rafsígarettum hefur. Til að meta þetta notaði hópurinn mýs sem var komið fyrir í búri þar sem reyknum var dælt inn, 1,5 klst í senn, tvisvar á dag í tvær vikur. Reyknum var dælt inn með ómenguðu lofti og þannig var reynt að herma eftir þeim aðstæðum sem myndast við reykingar. Efnin í reyknum voru mæld og eftir meðhöndlun voru mýsnar sýktar annars vegar með bakteríu og hins vegar með veiru.

Reykurinn úr rafsígarettunni inniheldur mikið af sindurefnum (fríum radikölum/free radicals) sem eru oxandi og geta þannig skemmt útfrá sér, t.d. skemma þessi efni erfðaefnið. Mýs sem voru meðhöndlaðar með reyknum úr rafsígarettu voru líklegri til að sýkjast, bæði eftir bakteríusmit og veirusmit en þær mýs sem önduðu að sér ómenguðu lofti. Rafsígarettureykurinn virtist líka auka bólgusvörun í öndunarvegi músanna.

Niðurstöður þessara tilrauna benda til þess að rafsígarettur eru alls ekki skaðlausar. Útfrá þessu er þó ekki hægt að meta hvort rafsígarettur séu betri, verri eða á par við hefðbundnar reykingar, því enginn slíkur músahópur var til staðar. Það má þó benda á að rafsígarettur eru ekki einungis notaðar af fólki sem er að reyna að hætta að reykja heldur verða þær einnig fyrir valinu hjá fólki sem reykir ekki, t.d. unglingum sem velja þetta í stað hefðbundinna reykinga. Slíkt er sennilega ekki góð þróun.

Hér má lesa greinina í heild