beetroot

Lesendur Hvatans hafa væntanlega orðið varir við rauðrófu æðið sem gripið hefur landann. Rauðrófur eru nú innbyrgðar í miklu magni og á alls kyns formi.

En hver er ávinningurinn af rauðrófuáti? Ný rannsókn sem birtist í American Journal of Physiology í júní síðastliðnum gefur til kynna að rauðrófuátið sé ekki bara tískubylgja heldur hafi raunverulega jákvæð áhrif á líkamann.

Eitt af innihaldseefnum rauðrófunnar er nítrat, sem er lítil sameind sem hefur áhrif á æðavídd og blóðflæði. Afleiðingar þess að taka nítrat getur því verið lægri blóðþrýstingur og minna álag á hjartað.

Svo eru rauðrófur í alvöru svona hollar? Svarið við þessari spurningu er líklegast já, inntaka á rauðrófusafa hefur jákvæð áhrif á áreynslugetu líkamans og hefur að auki góð áhrif á blóðflæðið í hvíld, eins og lesa má í fréttatilkynningu um rannsóknina.

Þó safinn virtist hafa góð áhrif á þá 15 karlmenn sem fengnir voru til að rannsaka í fyrrnefndri tilraun er þó því miður ekki þar með sagt að rauðrófur geti komið í stað blóðþrýstingslækkandi lyfja. Í það minnsta mælum við með samráði við lækni áður en slíkt skipti eru framkvæmd.