Mynd: Pregnancy approach
Mynd: Pregnancy approach

Við höfum sennilega flest heyrt að eftir vont höfuðhögg sem leiðir til heilahristings sé mikilvægt, til að koma í veg fyrir frekari skaða, að viðkomandi haldi kyrru fyrir í einhvern tíma. Samkvæmt nýrri rannsókn gætu slík tilmæli jafnvel verið til þess fallin að viðhalda einkennum heilahristings í lengri tíma.

Rannsóknin sem var unnin á barnaspítala í Ontario, Bandaríkjunum, gekk útá að spyrja börn sem höfðu komið inná spítalann útí hegðun sína eftir að hafa fengið heilahristing. Börnin fengu spurningalista 7, 14 og 28 dögum eftir slysið. Í ljós kom að tæplega 60% barnanna voru farin að hreyfa sig viku eftir slys og rúmlega 75% tveimur vikum eftir slysið, þó þau hafi fengið fyrirmæli um að halda kyrru fyrir. Þrátt fyrir það virtust þau börn sem fóru að hreyfa sig fyrr en heilbrigðisstarfsfólk hafði gefið fyrirmæli um, fljótari að ná bata en ella. Þetta gefur vísbendingar um að hreyfing hafi áhrif til hins betra.

Það ber þó að hafa í huga að frekari rannsókna er þörf áður en við breytum öllum þeim hefðbundnu aðferðum sem við höfum beitt við heilahristingi til þessa. Mögulega fengu börnin skemmri bata og einmitt þess vegna treystu þau sér til að fara fyrr að hreyfa sig, en ekki öfugt. Auk þess gæti skipt máli hvers konar hreyfing er stunduð, létt hreyfing eins og ganga eða sund hefur kannski minni áhrif heldur en æfingar þar sem aukin hætta er á höfuðhöggum.

Rannsóknin var kynnt í síðustu viku á ráðstefnu barnalækninga, í Baltimore.