cellphone

Lengi hefur hangið yfir okkur sú spurning hvort farsímar og aukin notkun þeirra hafi áhrif á heilsu okkar og þá sérstaklega með tilliti til krabbameina. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á hvort-tveggja.

Rannsókn, unnin við háskólasjúkrahúsið í Örebro, sem nýlega var birt í tímaritinu Pathophysiology, bendir til þess að notkun þráðlausra síma geti aukið líkurnar á illkynja heilaæxli. Líkurnar á því að fá illkynja heilaæxli eru u.þ.b. 0,005%. En með því að nota þráðlausan síma í 25 ár eða meira þá geta þessar líkur þrefaldast og orðið u.þ.b. 0,015%, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins í Örebro. Svo líkurnar eru samt sem áður mjög litlar.

Í rannsókninni var rætt við u.þ.b. 1500 Svía sem höfðu fengið heilaæxli. Rúmlega 3500 manns var safnað í viðmiðunarhóp, þ.e. hóp sem hafði ekki fengið krabbamein en var að öðru leyti líkur rannsóknarhópnum. Allir sem tóku þátt svöruðu svo spurningalista um notkun sína á farsímum og þráðlausum símum. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að áhætta á að fá heilaæxli jókst eftir því sem fólk notaði símann lengur og oftar. Æxlin mynduðust einnig frekar þeim megin sem fólk notaði símann.

En hvernig getur farsímanotkun haft áhrif á krabbameinsmyndun? Þeirri spurningu hefur reynst erfitt að svara. Farsímabylgjur eru svipaðar og útvarpsbylgjur í þeim skilningu að þær eru ekki jónandi geislun. Skýringuna er því sennilega ekki að finna í því að bylgjurnar hafi bein skaðleg áhrif á erfðaefnið. Einhverjar kenningar hafa komið fram um að hitinn frá bylgjunum valdi einhverjum breytingum á tjáningu gena í heilafrumunum sem liggja næst farsímanum, við eyrað. Enn sem komið er hefur enginn sýnt fram á með óyggjandi hætti að það sé raunin. Það er sem sagt ekki vitað hvernig farsímanotkun gæti stuðlað að myndum krabbameina.

Margir hópar hafa rannsakað hvort notendur farsíma séu í aukinni áhættu en svo virðist vera að uppbygging rannsóknarinnar hafi meiri áhrif á niðurstöðurnar en farsímanotkunin sjálf. Síðastliðin ár hefur farsímanotkun aukist margfalt en þó er ekki að sjá slíka aukningu í tilfellum heilaæxla. Lokaniðurstaðan er því sennilega sú að ef farsímar auka líkurnar á myndun æxla þá eru þær svo litlar að það er erfitt að meta þær, mögulega tekur líka langan tíma fyrir áhrifin að koma fram. Að auki gæti farsímanotkun verið að kveikja á undirliggjandi þætti, eins og breytingum á erfðaefninu sem eru aðeins til staðar hjá örfáum einstaklingum og hefðu ekki haft áhrif ef farsímanotkun hefði ekki komið til.

Í meðfylgjandi myndbandi er farið nokkuð vel yfir ofangreind atriði.