53d5820e6f5c7_-_eyeliner-mistakes-de

Fjöldi kvenna og sumir karlmenn nota augnblýanta sem hluta af sinni daglegu förðun og mæla förðunarfræðingar oft með því að slíkir blýantar séu notaðir á eða sem næst vatnslínu augnanna til að fá sem besta útkomu. Þetta kann þó að vera slæmt fyrir augnheilsu ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birt var í tímaritinu Eye and Contact Lens Science and Clinical Practice.

Í rannsókninni notuðu vísindamenn augnblýant sem innihélt glimmer á augnlínu þriggja kvenkyns þátttakenda. Glimmerblýantur var notaður í þeim tilgangi að auðvelda rannsóknarmönnum að sjá dreifingu augnblýantsins um augun. Augu kvennanna voru síðan mynduð til þess að athuga hversu mikið af glimmerinu barst í yfirborð augnanna. Það kemur kannski ekki á óvart að þegar augnblýanturinn var settur á vatnslínu augans, frekar en fyrir ofan augnhárin, barst glimmerið hraðar í augað. 15 til 30 prósent fleiri agnir bárust í augu þátttakenda þegar augnblýanturinn var notaður á vatnslínuna en tveimur klukkustundum seinna voru þær nánast horfnar.

Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar mælir rannsóknarhópurinn með því að augnblýantur sé eingöngu notaður á fyrir ofan augnhárin en ekki á vatnslínuna. Hópurinn bendir einnig á að þeir sem nota linsur séu líklegri til að lenda í vandræðum, en augnblýantur sem berst í linsur gæti valdið sjóntruflunum því skítugri sem linsurnar verða.

Það að fá augnblýant í augun virðist kannski heldur ómerkilegt í fyrstu en, eins og bent er á í fréttatilkynningunni, er heilmikið af bakteríum sem geta þrifist í oddi blýantsins. Rannsóknarhópurinn mælir því með því að blýanturinn sé yddaður fyrir hverja notkun og bendir á mikilvægi þess að fjarlægja allann augnfarað fyrir svefni til að koma í veg fyrir sýkingarhættu.