Mynd: Huffington Post
Mynd: Huffington Post

Síðan gemsinn kom til sögunnar hafa margir velt vöngum yfir því hvaða áhrif þessar bylgjur, sem ekki bara umlykja okkur allan daginn heldur við höldum upp að eyrunum á okkur, hafa á heilsu okkar. Margir hafa spáð því að tíðni krabbameina muni hækka þegar kynslóðir sem eru aldar upp í farsíma-umhverfi fara að eldast. Það má segja að fáum hafi tekist að rannsaka áhrif farsímanna til hlítar þar sem enn erum við tiltölulega stutt á veg komin í þessari byltingu, en með tíð og tíma birtast alltaf fleiri rannsóknir sem ná yfir nægilega langan tímaramma svo mark sé á þeim takandi.

Ein slík birtist í Cancer Epidemiology núna í apríl. Sú rannsókn var unnin í Ástralíu og tók til næstum 35.000 manns sem höfðu greinst með heilaæxli í Ástralíu yfir tímabilið 1982-2012.

Farsímanotkun hófst í Ástralíu í kringum 1987 og á skömmum tíma fjölgaði notendum úr 9% íbúa yfir í 90%. Til að skoða hvort þessi mikla og hraða aukning hafi haft áhrif á heilsu fólks var farið í gagnabanka sem geymir nýskráningnar heilaæxla hjá þjóðinni. Í þessari skrá er hægt að fletta upp fjölda tilfella á hverjum tímapunkti ásamt grunnupplýsingum um sjúklinginn eins og aldur. Samkvæmt upplýsingum úr þessum gagnagrunni var fólki skipt uppí aldursflokka og síðan var fjöldi nýskráðra tilfella hjá hverjum aldursflokki fyrir sig borinn saman milli ára.

Í ljós kom að árið 1982, áður en almenn notkun farsíma hófst, varð örlítil aukning í tíðni heilaæxla meðal elstu kynslóðanna. Líkur eru á að þessa aukningu megi rekja til betri greiningatækni. Að öðru leiti hélst nýskráning heilaæxla nokkurn veginn sú sama milli ára í öllum aldursflokkum.

Þessi rannsókn rennir stoðum undir fjölmargar aðrar rannsóknir, sem birtar hafa verið og taka til fleirri þjóða en Ástralíu, þar sem áhrif farsímanotkunar á myndun heilaæxla er blásin af borðinu. Hér er þó ekki minnst á önnur krabbamein, sem þó verður að teljast ólíklegt að notkunin hafi áhrif á. Rétt er þó að hafa í huga að þó þessi rannsókn sé löng, frá 1982-2012, þá gæti samt þurft enn lengra rannsóknartímabil til að sjá raunverulega langtímaáhrifin.