Hér á Íslandi er fiskneysla þokkalega algeng, þó með tímanum hafi hún því miður dregist saman. Fiski hefur lengi verið haldið á loft sem hollri fæðu og það er víst engin mýta, því með hverri rannsókninni sem framkvæmd er á fiskneyslu staflast upp vísbendingarnar um þau jákvæðu áhrif sem fiskneysla getur haft á líkama okkar.

Ein slík rannsókn var birt í Scientific Reports í lok síðasta mánaðar. Þar eru rúmlega 500 kínversk börn á aldrinum 9-11 ára og fiskneysla þeirra rannsóknarefnið. Börnin voru beðin um að svara spurningum varðandi hversu oft þau neyttu fiskmetis í mánuði. Síðan voru börnin látin taka greindarvísitölupróf og foreldrar þeirra voru svo beðnir um að svara spurningalista sem tók saman hvernig svefnvenjur barnanna voru.

Samkvæmt niðurstöðum þessa spurningalista virðast börn sem borða fisk a.m.k. einu sinni í viku eiga auðveldara með svefn en þau börn sem ekki borða mikinn fisk. Þessi sömu börn skoruðu líka að meðaltali 4,8 stigum hærra í greindarvísitöluprófunum en þau sem ekki borðuðu fisk.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að neysla omega-3 fitusýra getur haft áhrif á hegðun og hugsun fólks og telja höfundar greinarinnar að hér sé um sömu áhrif að ræða, þ.e. omega-3 fitusýrurnar í fiskinum eru að hafa góð áhrif á börnin.

Það er einnig mjög líklegt að fiskneyslan sé ekki endilega að hafa bein áhrif á gáfur barnanna eða svefn þeirra heldur eru áhrifin frekar almenn á taugakerfi barnanna sem gerir það að verkum að þau sofa betur, eiga auðveldara með að einbeita sér og læra. Þetta getur svo líka allt saman haft áhrif á félagshegðun barnanna en það er ekki síður mikilvægt að eiga auðvelt með að hafa samskipti við aðra.

Samkvæmt þessu er því varla hægt að leggja nógu mikla áherslu á hollustu fisksins. Það er því ekki úr vegi, ef einhver á eftir að strengja áramótaheit, að markmið ársins verði að borða meiri fisk.