lucky-fish-990x500

Járnskortur hrjári fjölda fólks um heim allann. Vonir standa þó til um að hægt sé að leysa þann vanda á einfaldan hátt með brosandi járnfiski. Þetta kann kannski að hljóma undarlega en nú þegar hefur fiskurinn reynst íbúum Kambódíu vel.

Um er að ræða járnklump sem steyptur er í mót af fiski. Uppfinningin kallast “The Lucky Iron Fish” og er einfaldur í notkun. Fiskurinn er settur í sjóðandi vatn og látinn vera þar í um 10 mínútur. Hann er síðan tekinn upp úr og matnum bætt út í. Með þessu losnar járn út í vatnið og dregur maturinn járnið í sig þegar hann er eldaður í vatninu. Þar með er komin járnrík máltíð og er þannig hægt að auka inntöku járns á einfaldann en jafnframt ódýran hátt.

Hugmyndina af fiskinum átti Christopher Charles, við Háskólann í Guelph. Hann tók eftir því á ferðalagi um Kambódíu að blóðleysi af völdum járnskorts var algengt vandamál í landinu. Í kjölfarið fékk hann hugmyndina af járnfiskinum og hefur uppfinningin nú þegar nýst fjölmörgum íbúum landsins, samkvæmt heimasíðu The Lucky Iron Fish.

Charles vill halda áfram að dreifa járnfiskinum sem víðast svo sem flestir íbúar heimsins geti notið góðs af uppfinningunni. Hér að neðan má sjá myndband frá The Lucky Iron Fish fyrir þá sem vilja fræðast meira um járnfiskinn.