kid-388527_1920

Fjarsýni í börnum er ekki sjalfgæft fyrirbæri, það er raunar svo algengt að fræðiheimurinn er ekki einhuga um hvort rétt sé að meðhöndla fjarsýni eða ekki. Fjarsýni sem greinist í börnum gengur nefnilega oft til baka og þó börn séu fjarsýn við fjögurra ára aldur þá geta þau verið með eðlilega sjón þegar þau koma í skóla.

Rannsóknarhópur við The Ohio State University birti grein í vísindaritinu Optometry and Vision Science þar sem þessi algenga nálgun á fjarsýni barna er sett í annan búning.

Í rannsókninni voru u.þ.b. 500 börn skoðuð, um helmingur þeirra hafði verið greindur með fjarsýni en hinn helmingurinn var með eðlilega sjón. Börnin voru beðin um að leysa alls kyns þrautir sem m.a. reyndu á getu þeirra til að einbeita sér og halda athygli á einum hlut í einu.

Heilt yfir virtust þeir einstaklingar sem höfðu verið greindir með fjarsýni eiga erfiðara með að halda einbeitingu í prófunum. Þau sem voru fjarsýn áttu erfiðara með að sjá þá hluti sem beðið var um, t.d. á myndum og þau áttu erfitt með að festa hugann við verkefnið sem þau voru beðin um að leysa.

Meðan börnin eru 4 ára og verkefni þeirra í leikskólanum snúast kannski ekki svo mikið um að beita sjónum sínum að ákveðnum hlutum sem eru þannig staðsett að börnin eiga erfitt með að festa auga á þeim, skiptir þetta kannski ekki svo miklu máli. En ef krakkarnir eru sett í aðstæður þar sem þetta skiptir máli, t.d. í leik eða jafnvel þegar þau eiga að byrja að læra að lesa þá getur staðan breyst.

Ef börn sem eru með fjarsýni eiga erfiðara með að einbeita sér að verkefnum í skóla þá er nokkuð augljóst að þeim er ekki veitt sama tækifæri til menntunar og þau börn sem hafa eðlilega sjón.

Rannsóknarhópurinn sem birti þessa rannsókn hefur nú þegar sótt um frekara fjármagn til að reyna að skoða hvort meðhöndlun með gleraugum getur hjálpað þessum börnum að koma stjórn á athygli sína. Það er fullsnemmt að fullyrða að fjarsýnin valdi því að börnin geta ekki einbeitt sér, en slík rannsókn mun leiða slíkt í ljós.