Mynd: The Huffington Post
Mynd: The Huffington Post

Þessi titill hljómar eins og gabb, enda finna nýbakaðir foreldrar allra síst fyrir æskuljóma sínum í miðjum næturgjöfum. Þrátt fyrir það virðast barneignir hafa áhrif á lengd litningaenda kvenna, en litningaendar og stytting þeirra er hluti af eðlilegri öldrun.

Rannsóknin var unnin við Simon Fraser University en í henni voru 75 konur af Kaqchikel Maya uppruna, þær voru allar búsettar á svipuðu svæði í Guatemala. Á 13 ára tímabili var sýnum safnað, í tvígang úr hverri konu, með munnholsstroku til að skoða erfðaefni þeirra. Sérstaklega var erfðaefnið skoðað með tilliti til lengdar litningaenda.

Litningaendar eru til staðar á hverjum einasta litningi í líkama okkar, þeir eru einþátta DNA sem hefur sérstaka byggingu, vefja sér upp í nokkurs konar lykkjur til að koma í veg fyrir að litningarnir brotni eða eru skynjaðir sem litningabrot. Litningaendarnir gegna því hlutverki að dempa styttingu litninganna sem óhjákvæmilega á sér stað við hverja frumuskiptingu, en við hverja skiptingu styttast endarnir og að lokum verða þeir svo stuttir að heilindi litninganna eru í hættu. Við slíkar aðstæður, ef fruman er heilbrigð, þá annað hvort deyr hún eða fer í öldrunarfasa.

Þegar litningaendar kvennanna frá Guatemala sem voru viðfangsefni greinar í PLOS ONE voru skoðaðir kom í ljós að mæður sem áttu mörg börn voru að meðaltali með lengri litningaenda en þær sem áttu fá börn. Litningaendar kvenna sem áttu mörg börn höfðu því styst hægar en þeirra sem áttu færri börn, eins og að öldrun þeirra kvenna væri í hægari takti.

Ástæðan fyrir þessum mismun er ekki ljós, en vísindahópurinn telur að estrógen magn í líkamanum hafi þarna áhrif, en bæði við meðgöngu og brjóstagjöf breytist hormónaseyting kvenna umtalsvert. Það er mikilvægt að skoða þetta sama viðfangsefni þar sem félagslegar aðstæður eru öðruvísi en í samfélaginu þar sem þessi rannsókn fór fram fá fjölskyldur fjárhagsaðstoð, frá yfirvöldum, með hverju barni og það gæti því einnig spilað rullu að mæður sem eiga mörg börn hafi einfaldlega minni fjárhagsáhyggjur. Hvor slík tengsl eru til staðar verða þó framtíðarrannsóknir að leiða í ljós.