screen-shot-2017-03-17-at-20-54-27

Foreldrar þekkja af eigin raun álagið sem getur fylgt því að eiga barn. Það virðist þó vera að svefnlausar næturnar borgi sig fyrir rest því samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru í Journal of Epidemiology & Public Health lifa foreldrar örlítið lengur er þeir sem eru barnlausir.

Það hefur verið vitað í nokkurn tíma að þeir sem eignast börn á lífsleiðinni lifi að meðaltali lengur en þeir sem ekki eiga börn, sér í lagi ef fólk eignast börn ungt. Hins vegar vitum við afar lítið um ástæðurnar sem liggja þar að baki.

Til að reyna að varpa ljósi á málið skoðuðu vísindamenn við Karolinska Institute í Svíþjóð gögn 700.000 manna og 750.000 kvenna sem fædd voru á árunum 1911 til 1925 og voru öll búsett í Svíþjóð á 60. aldursári sínu. Skráð var hvort viðkomandi hafi átt börn eða ekki, hversu hátt menntunarstig fólksins var, hvort það hafi verið gift eða ekki og hvenær það lést.

Augljóslega jukust líkurnar á dauðsfalli eftir því sem fólkið varð eldra en þeir sem áttu börn gátu þó átt von á því að lifa lengur. Við 60 ára aldur gátu karlmenn sem áttu börn búist við því að lifa 20,2 ár í viðbót en barnlausir menn 18,4 ár. Konur gátu aftur á móti búist við því að lifa í 24,6 ár í viðbót ættu þær börn en ef ekki voru árin 23,1.

Þeir karlmenn sem náðu 80 ára aldri máttu síðan eiga von á því að lifa í 7,7 ár í viðbót ættu þeir börn en 7 ef þeir áttu ekki börn. Fyrir konurnar var svipaða sögu að segja en mæður lifðu í um 9,5 ár í viðbót á móti 8,9 árum fyrir þær sem ekki áttu börn.

Ekki var marktækur munur á því hvort foreldrar ættu drengi eða stúlkur þegar kom að lífslíkum þó vísindamennirnir útiloki ekki að slíkur munir gæti sést í öðrum menningarheimum.

Ekki er fullljóst hvers vegna foreldrar lifa lengur en þeir sem ekki eiga börn en það kann að vera að aðstoð í heilbrigðismálum, ráðleggingar og félagsleg örvun spili þar hlutverk.

Ýmsir áhættuþættir aðrir en barneignir spila veigameiri þátt í lífslíkum og því kannski ekki ráðlegt að eignast börn í þeim eina tilgangi að lifa nokkrum mánuðum lengur.