Með vaxandi aðgengi að snjalltækni vakna enn á ný áhyggjur af því hvaða áhrif hún hefur á börnin okkar. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum skjátíma á börn og unglinga, tölvuleikjafíkn ungmenna og svo framvegis.

Á meðan hefur snjalltækjanotkun foreldra minna verið undir smásjánni. Það eru jú foreldrar sem bera ábyrgð á því að kenna börnum sínum að umgangast þessa tækni. Slíkt getur þó reynst erfitt meðan nefið er fast ofan í símanum eða tölvunni, eins og nýleg rannsókn frá University of Michigan Medical School sýnir.

Í rannsókninni voru 172 foreldrapör beðin um að svara spurningalista varðandi notkun sína á ýmsum tækjum s.s. tölvum, símum og sjónvörpum yfir daginn. Þau voru einnig beðin um að meta hversu oft tækjanotkunin truflaði samverustundir með börnunum eða samskipti þeirra á milli. Þar að auki voru foreldrarnir beðnir um að lýsa hegðun barna sinna sem og sinni eigin líðan almennt.

Þegar spurningalistarnir voru skoðaðir kom í ljós að foreldrarnir eyddu að meðaltali 9 klukkustundum á dag við tölvuskjá, hvort sem um var að ræða tölvu, síma eða annað samsvarandi tæki. Í nánast öllum tilfellum truflaði tækjanotkun foreldra samskipti þeirra við börnin a.m.k. einu sinni á dag.

Foreldrar sem lýstu hegðun barn síns á neikvæðan hátt, þ.e. að barnið ætti erfitt með að einbeita sér, væri fýlugjarnt eða tæki frekjuköst, upplifðu að meðaltali fleiri tækjatruflanir á meðan á fjölskyldustundum stóð. Á sama hátt var ólíklegt að börn sem fengu góða hegðunarumsögn frá foreldrum sínum, þyrftu að þola truflanir frá tækjum á meðan á samskiptum þeirra við foreldra sína stóð.

Þessar niðurstöður má túlka á tvennan hátt, annars vegar eru tækin ákveðin leið fyrir foreldra til að flýja frá þeim erfiðleikum sem fylgja erfiðri hegðun barna. Hins vegar getur sú truflun sem tækin valda í samskiptum fjölskyldna ýtt undir óæskilega hegðun barnanna sem finnst þau ekki fá nægilega mikla athygli frá foreldrum sínum.

Í stuttu máli má þvi segja að hér myndist nokkurs konar vítahringur. Foreldrar sem treysta sér ekki til að taka á vandanum eru að ýta undir hann með þvi að flýja inní heim snjallsímans. Börnin fá þá ekki þá athygli og umhyggju sem þau þurfa sérstaklega á að halda í þessu ástandi og hegðun þeirra versnar

Við ættum kannski öll að passa uppá að takmarka skjátímann okkar, hvort sem við flokkumst til barna eða fullorðinna. Stundum er líka áhugavert að upplifa heiminn á annan hátt en í gegnum myndavélina í símanum.