charles2 (1)

Kanadískur verkfræðingur, Charles Bombardier, telur sig hafa hannað flugvél sem gæti gjörbreytt því hversu langan tíma ferðalög taka. Flugvélin, sem hefur einungis verið hönnuð en ekki byggð, kallast “The Antipode” og ætti samkvæmt útreikningum Bombardier og samstarfsfélaga hjá fyrirtækinu Imaginactive að geta flogið frá New York til London á aðeins 11 mínútum.

Gert er ráð fyrir því að flugvélin taki 10 farþega og gangi fyrir endurnýtanlegu fljótandi súrefni eða steinolíu. Flugvélin ætti að ná meira en 20.000 kílómetra hraða á klukkustund og fljúga í allt að 12.192 metra hæð sem myndi gera henni kleyft að fljúga frá New York til Dubai á 22 mínútum, New York til Hong Kong á 26 mínútum og New York til Sydney á 32 mínútum.

Slík flugvél myndi vafalaust gagnast mörgum en eins og staðan er í dag er margt óljóst varðandi hönnun hennar, til dæmis hvernig hún mun koma til með að draga úr þessum mikla hraða fyrir lendingu. Imaginactive er sjálfseignarstofnun og stefnir því fremur að því að gera hugmyndina opinbera í þeirri von að einhver taki það að sér að hefja framleiðslu á henni en að taka að sér framleiðsluna sjálft.