Bionic arm

Ný tækni í þróun gerviútlima gerir einstaklingum kleift að stjórna gerviútlimum eins og raunverulegum útlimum.

Það var Oskar Aszmann, prófessor við Medical University í Vín, sem stjórnaði þróun nýrra útlima þar sem gervilimnum er stjórnað með taugaboðum þess sem ber útliminn. Þrír hafa nú þegar fengið slíka gerviútlimi en þeir voru allir með hreyfihamlaðar hendur, sem voru fjarlægðar af sjúklingunum og nýjum gervihöndum komið fyrir í staðinn.

Mennirnir sem fengu ágræðsluna höfðu allir lent í slysi sem leiddi til sköddunar á taugafrumum sem sjá um hreyfingu á handlegg og hendi. Meðferðarúrræði við slíkum skaða er ekki mjög skilvirkur og sjaldnast fæst hreyfigeta aftur eftir skurðaðgerð. Að auki fylgir oft mikill sársauki þessu ástandi.

Til að komast í meðferðina þurftu sjúklingarnir að uppfylla ströng skilyrði, til dæmis urðu að vera virkir vöðvar og taugar í hendinni sem hægt væri að virkja til að stjórna gerviútlimnum. Taugaskaðinn sem sjúklingarnir urðu fyrir átti sér stað í taugum við öxlina en nauðsynlegt var að sjúklingarnir hefðu hreyfigetu bæði í öxl og olnboga. Hönd sjúklinganna var svo tekin af á framhandlegg.

Sjúklingarnir voru látnir undirgangast meðferð til að örva vöðva og taugar sem voru svo notaðar til að stjórna nýju hendinni. Í gervihöndunum eru nemar sem skynja rafboð frá vöðvum sjúklingsins og túlka þau og þannig getur sjúklingurinn stjórnað þeim. Allir sjúklingarnir upplifðu aukna hreyfigetu og lífsgæði eftir aðgerðina. Samkvæmt höfundum greinarinnar er þetta í fyrsta skipti sem slík aðgerð er framkvæmd en vonir standa til að hægt verði að nota þessa aðferð við meðferð fleiri sjúklinga sem hafa litla sem enga hreyfigetu í útlimum.

Greinina er hægt að nálgast hér.