eye-lashes

Liggur fullkomnun augnhára í fegurð eða kannski bara í notagildi þeirra?

Hópur við Georgia Institute of Technology komst að því að 22 dýrategundir af þeim 23 sem tekin voru fyrir í rannsókninni voru með augnháralengd sem samsvarar 1/3 breiddar augans. Þetta er engin tilviljun, en samkvæmt tilgátu Guillermo J. Amador og meðhöfunda hans er hlutverk augnháranna að stjórna loftflæði um augað og uppgufun af hornhimnunni. Ef lengd augnháranna er minni verður flæði loftsins um augað of mikið en ef lengdin er meiri þá fara augnhárin að soga loftið inn ásamt því að sópa ryki inní augun svo þau verða þurr.

Hópurinn notaðist við mælingar á augnhárum á uppstoppuðum dýrum, á American Museum of Natural History í New York. Síðan bjó hópurinn til augnlíkan, þar sem loftflæði og uppgufun voru mæld til að sannreyna tilgátuna um tilgang augnháranna.

Gaman er að geta þess að ein dýrategund var alveg sér á báti hvað augnháralengd varðar og það var fíllinn sem var með miklu lengri augnhár en því sem nemur þriðjungi af breidd augans.

Hér má lesa greinina í heild sinni en hún birtist í The Royal Society þann 25. febrúar síðastliðinn.