Mynd: New Scientist
Mynd: New Scientist

Góðar fréttir fyrir þá sem eru hræddir við tannlækna, nú eru að koma á markað fyllingar sem koma í veg fyrir frekari skemmdir í munnholinu. Fyllingarnar eru sérhúðaðar með fjórgreindum ammoníum jónum sem eru efni sem bakteríur hafa ekki sérlega mikinn áhuga á að vera nálægt.

Hópur við háskólann í Groningen hannaði nýja fyllingarefnið. Þau notast við þrívíddarprentun til að búa til fyllinguna sem er að mestu leiti byggð upp á sama hátt og venjulegar fyllingar. Fyllingarnar eru síðan húðaðar með ammóníum söltum sem gerir þær að því undraefni sem þær eru.

Fyllingarnar voru prófaðar með tilliti til áhrifa þeirra á bakteríur og í ljós kom að bakteríur sem fyrirfinnast í munni og eru þekktar fyrir að valda þar skaða geta illa eða ekki lifað nálægt efninu. Við prófun á virkni vörunnar var efnið sett í munnvatnsblöndu og við það drápust 99% þeirra baktería sem fyrir voru. Það hlýtur að vera jákvætt að losa sig við bakteríur í munninum en á sama tíma gætu einnig verið góðar bakteríur til staðar sem er mikilvægt að útrýma ekki alveg. Frekari rannsókna er því þörf til að skilgreina hvaða bakteríur tilheyra þessu eina prósenti sem þoldi efnið.

Hópurinn leitar nú leiða til að koma efninu enn frekar á framfæri, ekki bara sem hluti af fyllingu heldur einnig í tannkrem og aðrar vörur.