Mynd: Stillwater Dental Associates
Mynd: Stillwater Dental Associates

Tannheilsa er mjög okkur flestum mjög mikilvæg, hæfni okkar til að innbyrgða mat byggist jú á því að hafa þokkalega heilt stell í munninum. Margir hafa þess vegna látið sig hafa það að láta tannlækninn bora og brasa eitthvað uppí sér til þess að laga og betrumbæta, en hvað er það sem tannlæknar nota til að betrumbæta?

Flestir tannlæknar nota í dag fyllingar í tennurnar sem eru hvítar á lit og sjást því ekki. Fyrir ekkert svo löngu síðan var notast við svokallaðar silfurfyllingar hér á landi en víða eru þær enn notaðar við tannviðgerðir. Stór hluti silfurfyllinganna er kvikasilfur, en allir ættu að forðast að fá kvikasilfur nálægt meltingarfærunum, eins og í munninn, þar sem málmurinn er eitraður og getur í miklu magni leitt til líffærabilana. Að sjálfsögðu er magn kvikasilfurs í silfurfyllingunum svo lítið að það hefur ekki eitrunaráhrif á líkama okkar, eða hvað?

Í nýrri rannsókn sem unnin var við The University of Georgia tók rannsóknarhópur saman hvort silfurfyllingar í tönnum hefðu áhrif á kvikasilfursmagn í blóði. Úrtak rannsóknarinnar var rúmlega 14 þúsund manns og sýndi rannsóknin að fyllingarnar leka kvikasilfri útí líkamann. Hjá einstaklingum sem voru með 8 fyllingar eða meira mældist kvikasilfur í blóði 150% hærra en hjá þeim sem ekki voru með neinar fyllingar.

Þetta gefur til kynna að þó magnið sem finnst í einni fyllingu hafi engin áhrif þá aukast líkurnar á eitrunaráhrifum eftir því sem fyllingunum fjölgar. Það er þess vegna mjög mikilvægt að hugsa vel um tennurnar sínar, ekki bara til að viðhalda eiginleikanum að geta tuggið heldur að nokkru leiti til að vernda innri líffæri okkar.