2015-tesla-model-s-70d-instrumented-test-review-car-and-driver-photo-658384-s-original

Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú dauðsfall sem varð við árekstur í Flórída þann 7. maí. Slysið er sérstakt að því leiti að annar bílanna í árekstrinum var sjálfkeyrandi og er þetta fyrsta dauðsfallið sem tilkynnt hefur verið þar sem sjálfkeyrandi bíll á í hlut.

Bíllinn var af gerðinni Tesla Model S sem hægt er að stilla á sjálfstýringu og var það einmitt það sem bílstjórinn hafði gert áður en slysið átti sér stað. Því miður tókst bílnum ekki að skynja muninn á hvítum himninum og hvítri málingu á hlið vörubíls sem hafði þær hræðilegu afleiðingar að bíllinn hélt áfram á fullri ferð undir tengivagn. Við áreksturinn rifnaði þakið af bílnum og ökumaður Teslunnar, Joshua Brown, lét lífið. Bílstjóri vörubílsins slapp ómeiddur.

Að sögn talsmanna Tesla er þetta í fyrsta sinn sem dauðsfall verður á þeim 209 milljón kílómetrum sem keyrðar hafa verið með sjálfstýringu í gangi. Til samanurðar segja þeir að á hefðbundnum bílum verði dauðsfall á um 145 milljón kílómetra fresti í Bandaríkjunum en á um 97 milljón kílómetra fresti á heimsvísu. Þeir segja einnig að málið sé einungis í rannsókn til að kanna hvort kerfið virkaði eins og væntinga stóðu til um.

Þegar kemur að bílslysum eru það oftar en ekki mannleg mistök sem eiga í hlut. Með tilkomu sjálfstýrðra bíla er talið að koma mætti í veg fyrir stóran hluta slysa með því að taka út mannlega þáttinn. Slysið í Flórída sýnir þó að ýmislegt geti farið úrskeiðis þegar ekki hefur verið hugsað fyrir öllum mögulegum aðstæðum í forritun bílanna.