penis_0

Læknar við sjúkrahús í Cape Town hafa nú tilkynnt að getnaðarlimságræðsla á 21 árs gamlan mann hefur tekist með prýði. Limurinn kemur algjörlega í stað upprunalegs getnaðarlims sem maðurinn missti vegna mistaka við umskurð aðeins 18 ára.

Á sumum svæðum í Suður Afríku er rík hefð fyrir umskurði sem nokkurs konar vígsluathöfn fyrir unga menn inní fullorðinnamanna samfélag. Þar í landi er því ekki óalgengt að ungir menn missi getnaðarlimi sína eftir umskurð. Aðgerðir sem þessar eru því mikilvægar í Suður Afríku.

Aðgerðin var framkvæmd í desember 2014 og hefur sjúklingurinn nú þegar fengið fulla virkni í líffærið þó læknar segi að það muni taka næstu 2 ár að fá fulla næmni í liminn.

Ágræðslan hefur vakið margar siðferðilegar spurningar. Þar sem slík líffæragjöf er ekki lífsnauðsynleg og eykur ekki lífslíkur einstaklingins, þá má spyrja hvort hún sé réttlætanleg. Læknarnir sem unnu að aðgerðinni svara því á þann hátt að einstaklingar sem missa getnaðarliminn eru líklegri til að taka eigin líf. En þar sem líffærið er ekki bara sjáanlegt heldur líka af þessu eðli þá hefur ágræðslan líka gífurleg áhrif á sálarlíf einstaklingsins. Sálfræðilegur undirbúningur sjúklingsins var því mjög mikill og er sennilega einn af mikilvægustu þáttunum í slíkum aðgerðum.

Umfjöllun BBC um málið má lesa hér. Myndin hér að ofan sýnir læknateymið sem framkvæmdi aðgerðina og er fengin af heimasíðu Stellenbosch University þar sem hluti þeirra starfar.