Mynd: Petfinder
Mynd: Petfinder

Hundurinn er besti vinur mannsins og hefur verið síðan elstu menn muna. Nýlegar rannsóknir um áhrif hundaeignar á astma sem og fleiri líkamlegra þátta hafa sýnt að hundar gera meira en að veita okkur ómetanlegan félagsskap. Nú hefur Centres for Disease Control and Prevention birt rannsókn þar sem vísbendingar koma fram um jákvæð áhrif hundaeignar á stress og kvíða meðal barna.

Í rannsókninni voru 643 börn skoðuð. Foreldrar þessara barna svöruðu ítarlegum spurningalista um til dæmis líkamsþyngd, hreyfingu, sálræna líðan og auðvitað hvort gæludýr væri á heimilinu. Þegar borin voru saman börn sem áttu hund og þau sem ekki áttu hund kom í ljós að marktækur munur var á sálrænni líðan þeirra. En 12% barna sem áttu hund þjáðust af stressi eða kvíða meðan 21% barna sem ekki áttu hund þjáðust af slíkum kvillum.

Þó telja megi rannsókninni til taps að hún er unnin uppúr spurningalistum foreldra þá er hún samt sem áður mjög sterk hvað varðar fjölda þátttakenda. Næst stendur til að endurtaka rannsóknina í misleitari hópi barna, en í þetta sinn náði hún nánast einungis til hvítra barna, og um leið verður farin önnur leið að því að meta líðan barnanna.

Hver ástæðan fyrir þessum jákvæðu áhrifum hunda verður einnig svarað en telja vísindamennirnir að það geti haft með seitun oxýtósíns að gera. Oxýtósín er stundum kallað ástarhormónið en því er seitt um líkamann við til dæmis við brjóstagjöf og fullnægingu. Hormónið spilar svo rullu í félagslegum samskiptum, þannig að það gefur okkur tilfinningu trausts og vellíðan.

Hver svo sem ástæðan reynist vera er ljóst að hundar spila stærri rullu í lífi mannskepnunnar en við gerum okkur grein fyrir.