laugh_chimp

Menn nota ótrúleg svipbrigði og látbragð til að sýna tilfinningar sínar. Ein skrítnasta þeirra er kannski hlátur, hann er skemmtilegur og lætur manni líða vel og bara tilhugsunin um hvað hann er skrítinn lætur mann fara að hlæja. Venjuleg manneskja byrjar hláturinn á því að sýna tennurnar með því að sveigja munnvikin frá tönnunum og uppá við. Síðan taka við krampakenndar hreyfingar í brjóst- og kviðarholi og oft fylgja furðuleg hljóð í kjölfarið. En ætli maðurinn sé eina lífveran sem hagar sér svona furðulega þegar hún gleðst?

Ný greins em birtist í PLOS ONE á dögunum sýnir hvernig simpansar sýna bæði sambærileg svipbrigði og menn við hlátur auk þess sem þeir gefa frá sér hláturhljóð þegar þeir eru glaðir. Þetta er ekki einsdæmi en árið 2000 birtist önnur grein í Behavioural Brain Research þar sem sýnt var fram á að rottur gefa frá sér hlátur hljóð, sem eru reyndar utan heyrnarsviðs mannsins en engu að síður eru það hljóð sem rotturnar gefa frá sér þegar einhver leikur við þær eða er góður við þær. Einnig hafa fleiri rannsóknir sama eðlis verið birtar sem gefa sömu niðurstöður til kynna um fleiri prímata, eins og fjallað er um í pistli sem birtist á heimasíðu National Geographic.

Það er gott að vita til þess að dýr upplifa einnig gleðina sem fylgir því að hlæja og svo er bæði gaman og krúttlegt að sjá það en hvaða gildi hafa þessar rannsóknir? Fyrir utan skemmtanagildið sem felst í hlátri þá geta þessar niðurstöður nýst manninum við rannsóknir á ýmsum sjúkdómum sem tengjast heilanum og tilfinningum. Hvað gerist til dæmis í heilanum þegar við gleðjumst og hlæjum? Getum við mögulega örvað þann feril hjá fólki sem á erfitt með að finna fyrir gleði.

Tilfinningar eru nefnilega mjög flókið samspil hormóna og taugaboða í heilanum. Margir sjúkdómar sem flokkast undir geðræna kvilla eiga upptök sín í því að eitthvað rof verður á samspilinu. Með aukinni þekkingu eykst ekki bara möguleikinn á að finna lækningu heldur dregur það líka á þeim fordómum sem fólk sem þjáist af geðrænum kvillum finnur fyrir. Það sem við þekkjum ekki á það nefnilega til að hræða okkur, svo með því að skapa meiri þekkingu verða hlutirnir síður hræðilegir.