tetris

Leiða má að því líkur að flestir lesendur Hvatans hafi leikið sér í tetris, enda frábær leikur. Tetris gengur útá að raða ólögulegum kubbum saman svo þeir fylli uppí ákveðið rými, þessi leikur getur virst ávandabindandi svo hvern hefði grunað að leikurinn gæti hjálpað þeim sem glíma við fíknisjúkdóma?

Ný rannsókn, sem unnin var við Plymouth University og Queensland University gefur til kynna að nokkra mínútna tetris-leikur geti minnkað þrá einstaklinga í ávanabindandi efni, hvort sem um er að ræða eiturlyfjafíkn, matarfíkn eða eitthvað annað.

Rannsóknin var framkvæmd á sjálfboðaliðum á menntaskólaaldri. Þau voru beðin um að láta vita þegar löngun í eitthvað kom yfir þau og tilgreina hversu sterk löngunin var. Síðan voru þátttakendur beðnir um að leika tetris í 3 mínútur og tilkynna svo á ný hversu mikla löngun viðkomandi hafði í tiltekinn mat, efni eða athöfn eftir það. Löngunin gat beinst að öllu frá eiturlyfjum til kynlífs og áttu allar langanirnar það sameiginlegt að eftir nokkrar mínútur í tetris höfðu þær minnkað umtalsvert.

Skýringin á þessu gæti verið að hluti af lönguninni felst í því að sjá drykkinn/matinn/athöfnina fyrir sér. Meðan viðkomandi spilar tetris, og jafnvel þá aðra heilaleikfimi, er ekki pláss fyrir þessar myndir í heilanum. Frekari rannsókna er þörf til að svara því hvort tetris gæti verið hluti af meðferðarúrræði fyrir fíkla en þessi rannsókn gefur góða raun. Þeir sem glíma til dæmis við óstjórnlega löngun í ís eða sætindi geta framkvæmt sína eigin tilraun og athugað hvort tetris dragi úr lönguninni.