navigation

Nú til dags getur verið ótrúlega auðvelt fyrir einstaklinga að keyra á milli staða jafnvel í stórum borgum sem viðkomandi þekkir lítið sem ekkert. Ástæðan er auðvitað tæknin, en við getum notað GPS tæki til að hjálpa okkur að rata nánast hvar sem er. Í nýrri rannsókn sem framkvæmd var við University College London kemur í ljós að þessi nýja tækni hefur áhrif á heilastarfsemi okkar þegar við keyrum.

Í rannsókninni voru 24 sjálfboðaliðar beðnir um að keyra um í London, í ökuhermi. Samatímis fylgdist vísindahópurinn með heilastarfsemi sjálfboðaliðana í heilarita til að sjá hvaða stöðvar heilans virkjuðust. Sjálfboðaliðarnir voru beðnir um að komast á milli staða með og án hjálpar frá GPS tækjum.

Þau svæði sem helst voru virk í heilanum meðan á ökuferðinni stóð voru heilabörkurinn (prefrontal cortex) og drekinn (hippocampus). Þegar komið var að flóknum gatnamótum, þar sem margir möguleikar stóðu til boða jókst virknin í þessum tveimur stöðum heilmikið, ef sá sem sat undir stýri þurfti að treysta á sjálfan sig til að rata. Ef viðkomandi hafði GPS tæki til að styðjast við breyttist heilastarfsemin ekkert við það að koma að flóknum gatnamótum.

Því flóknari sem gatnamótin voru því meira jókst heilastarfsemin, það má því líka leiða að því líkur að virknin er mismunandi milli borga, t.d. má sjá fyrir sér að New York, sem er nokkuð vel skipulögð veki ekki jafn mikla virkni og hin flókna London.

En hvað þýða þessar niðurstöður? Gildi þeirra felst fyrst og fremst í því að skilja hvernig heilinn virkar þegar við erum að reyna að rata. Það getur til dæmis gefið okkur hugmynd um hvernig best er að skipuleggja borgir og hús, ef fólk hefur t.d. ekki möguleikann á að styðjast við GPS.

En svo gæti aukinn skilningur okkar á heilastarfseminni líka hjálpað okkur við að skipuleggja hús eða stofnanir þar sem fólk sem glímir við heilasjúkdóma dvelur. Það er t.d. möguleiki að létta líf Alzheimer’s sjúklinga heilmikið með því að stuðla að einföldu og þægilegu umhverfi fyrir viðkomandi.