Mynd: Dr Kate Roberts
Mynd: Dr Kate Roberts

Margir þættir spila inní myndun krabbameina, það eru ekki bara genin okkar heldur allt umhverfið og áreitið sem genin okkar verða fyrir sem koma krabbameinsþróun af stað. Rannsóknir á því hvernig erfðir og umhverfi spila saman hjálpa okkur að skilja hvaða þættir það eru sem þarf að varast og einnig hvers vegna krabbamein verða til.

Ný rannsókn sem kynnt var á National Cancer Research Institute conference sem haldin var í Bretlandi í vikunni sýnir að konur sem eiga eitt barn eru 20% ólíklegri til að fá eggjastokkakrabbamein en konur sem ekki eiga barn. Líkurnar á því að fá eggjastokkakrabbamein minnka svo um 8% með hverju barni sem bætist í hópinn. Svo til að tryggja sig gegn eggjastokkakrabbameini þurfa konur að eignast mörg börn? Því miður er þetta ekki alveg svona einfalt.

Í þessari sömu rannsókn kom einnig í ljós að konur sem fara í ófrjósemisaðgerð eru einnig ólíklegri til að fá eggjastokkakrabbamein en þær sem ekki hafa farið í ófrjósemiaðgerð. Þetta virðist vera svolítið í þversögn við áður nefndar niðurstöður en svo þarf þó ekki að vera. Eins og Kezia Gaitskell, stjórnandi rannsóknarinnar bendir á, þá þarf fylgni milli barneigna og minnkaðri áhættu ekki endilega að vera orsakasamhengi. Mögulega eru það ástæður barnleysisins sem hafa einnig áhrif á myndun krabbameina. Sem dæmi má nefna að konur með legslímuflakk eru líklegri til að eiga í erfiðleikum með að eignast börn og á sama tíma getur legslímuflakk aukið líkurnar á eggjastokkakrabbameini.

Sú staðreynd að konur sem fara í ófrjósemisaðgerð eru ólíklegri til að fá eggjastokkakrabbamein gæti svo verið af öðrum toga, til dæmis gæti aðgerðin valdið því að lokað er fyrir ákveðnar leiðir sem yfirleitt er opin fyrir frumur sem eru á einhverju ferðalagi. Þó eggjastokkakrabbamein sé allt saman upprunið í sama líffæri, að því er við best vitum, þá er samt sem áður um marga mismunandi sjúkdóma að ræða. Sjúkdómurinn getur verið mismunandi eftir því í hvaða frumugerð æxlið hefst og hvers konar genabreytingar hafa átt sér stað í frumunum svo eitthvað sé nefnt.

Rannsókn sem þessi bætir einu púsli í myndina varðandi eggjastokkakrabbamein en enn sem komið er vantar fleiri púsl til að sjá heildarmyndina. Þangað til er besta vörnin gegn krabbameini heilbrigður lífstíll og almenn þekking á eigin líkama og líðan.