Mynd: ENT clinic
Mynd: ENT clinic

Flestir ef ekki allir hrjóta öðru hvoru, kannski ekki margar nætur í senn eða yfir heila nótt, en að öllum líkindum hefur þú lesandi góður hrotið einhvern tíman á lífsleiðinni. Þetta á líka við um börn, þau eiga það til að taka tímabil þar sem þau hrjóta. Stutt tímabil, þar sem börnin hrjóta sjaldnar en einu sinni í viku, hafa sennilega lítil sem engin áhrif á heimilislífið, sér í lagi barnið. En öðru máli gegnir ef hroturnar standa yfir í lengri tíma.

Börn sem hrjóta yfir lengri tíma verða oft vansvefta þar sem hroturnar eða kannski frekar það sem veldur hrotunum trufla barnið í svefni. Algengt er að tíðar hrotur stafi af kæfisvefni sem skerðir mjög svefngæði barna sem og annarra. Þegar um kæfisvefn er að ræða hvílist einstaklingurinn ekki nægilega vel og getur það valdið ýmsum vandamálum meðan á vöku stendur, svo sem einbeitingaskorti og almennri þreytu.

Í rannsókn sem framkvæmd var við Háskólann í Gautaborg skoðaði rannsóknarhópur hversu meðvitaðir foreldrar eru um svefn barna sinna. Í ljós kom að um 5% barnanna 1300 sem tóku þátt í rannsókninni hrutu oft í viku og glímdu að öllum líkindum við einhvers konar afleiðingar svefntruflana. Þrátt fyrir þetta höfðu aðeins um þriðjungur þeirra barna sem urðu fyrir svefntruflunum leitað sér aðstoðar.

Oft er lausnin á þessum svefnvandamálum jafneinföld og kirtlataka en einhverra hluta vegna leita foreldrar ekki aðstoðar fyrir börnin sín. Líkleg ástæða fyrir því er skortur á þekkingu á svefntruflunum sem og skortur á upplýsingum um hvar aðstoð sé að finna. Það er því um að gera fyrir foreldra að hlusta eftir hrotum úr barnaherberginu öðru hvoru, sérstaklega ef óútskýrð þreyta sækir að börnunum á daginn.