Margir hafa gengið í gegnum hálskirtlatöku, hvort sem er sem barn eða á fullorðinsárum. Oft er brugðið á það ráð að losa einstaklinga við þessa eitla, hálskirtlana eða nefkirtlana, ef tíðar sýkingar í hálsi hrjá þá. Þessar aðgerðir eru ekki taldar hafa teljanleg áhrif á einstaklinginn þar sem örar sýkingar séu merki um að líffærin geri meira ógagn en gagn.

Nýleg rannsókn bendir þó til að myndin sé ekki alveg svona einföld. Rannsóknin sem var samstarfsverkefni University of Melbourne og Copenhagen Evolutionary Medicine program miðaði að því að skoða áhrif háls- og nefkirtlatöku til lengri tíma.

Nær 1,2 milljón danskra barna voru undir smásjánni í rannsókninni. Börnin voru fædd á tímabilinu 1979-1999 og af þeim fóru um 50þúsund börn í annað hvort hálskirta, nefkirtla eða háls- og nefkirtla töku fyrir 10 ára aldur. Farið var yfir sjúkráskrá þessara einstaklinga til allt að 30 ára aldurs og var hún borin saman við sjúkrasögu þeirra einstaklinga sem ekki fóru í neina kirtlatöku.

Í ljós kom að þeir sem höfðu farið í einhvers konar kirtlatöku voru í meiri hættu á að fá öndunarfærasjúkdóma á borð við astma eða sýkingar eins og lungnabólgu eða inflúensu. Áhættan heilt yfir hópinn sem fór í kirtlatöku var um 18% samanborið við þá sem voru með alla sína háls- og nefkirtla. Þeir einstaklingar sem fóru í kirtlatöku voru einnig í rúmlega tvöfalt meiri áhættu að fá krónískar sýkingar í efri öndunarveg miðað við þá sem ekki fóru í kirtlatöku.

Þessar niðurstöður benda til þess að með inngripi eins og háls- og nefkirtlatöku gætum við verið að hafa stórkostleg áhrif á ónæmiskerfi einstaklinganna. Þetta á sér í lagi við um börn sem enn eru að þroskast og byggja upp sitt ónæmiskerfi. Inngrip sem þetta ætti kannski að vera neðar á forgangslistanum ef krónískar bólgur eru til staðar í eitlum.

Því skal þó haldið til haga að háls- og nefkirtlar eru ekki fjarlægðir úr börnum ef engin ástæða liggur að baki. Allir þeir einstaklingar sem komu við sögu í ofantalinni rannsókn fengu bót meina sinna, sem yfirleitt voru krónískt bólgnir kirtlar eða öndunarerfiðleikar, þó aðrir erfiðleikar hafi sótt á þá seinna meir.

Sú staðreynd að þessum einstaklingum var vísað í kirtlatöku gæti einnig haft áhrif á hvers konar ónæmiskerfi þeir þróuðu með sér. Þannig að þó þeir hafi seinna á lífsleiðinni verið í áhættuhóp fyrir öndunarfærasjúdkóma þá er gæti það að hluta til útskýrst af þeim kvilla sem olli í upphafi bólgnum eitlum í hálsi og nefi.