unhealthy-diet

Enn og aftur birtast rannsóknir um áhrif lífstíls okkar á heilbrigði okkar. Nú síðast birtist grein í The Lancet þar sem bent er á að fjölgun einstaklinga í heiminum sem kljást við ofþyngd fjölgar nú svo hratt að þeir eru langt um fleiri en einstaklingarnir sem glíma við undirþyngd.

Í greininni eru teknar saman 1698 rannsóknir sem gerðar hafa verið frá árunum 1975-2014. Í þeim kemur fram að líkamsþyngdarstuðull heimsins hefur að meðaltali hækkað úr 21.7kg/m² í 24.2 kg/m², fyrir karla og 22.1kg/m² í 24.4 kg/m², fyrir konur, síðastliðin 40 ár. Þessu er auðvitað ekki eins farið alls staðar í heiminum og í stórum hluta Asíu sem og Afríku glíma enn margir einstaklingar við næringarskort.

Helst hefur líkamsþyngdarstuðullinn færst uppá við hjá þjóðum sem teljast ríkar og hjá mörgum þeirra eins og Bretlandi og Írlandi er talið að eftir einungis tíu ár verði u.þ.b. 40% þjóðanna að glíma við offitu. Sé horft til Bandaríkjanna nálgast hlutfallið helming þjóðarinnar árið 2025, eða 45%.

Á sama tíma eru 20% karla og um 25% kvenna í löndum á borð við Indland, Afganistan og Eþíópíu undir kjörþyngd og má því áætla að þau glími við eða séu á barmi næringaskorts. Hér kemur misskipting heimsins mjög skýrt fram.

En hvers vegna skiptir þetta eiginlega máli? Þetta virðist vera orðin sagan endalausa og flestir sennilega komnir með leið á að lesa fréttir sem þessar en offitu fylgja nefnilega heilsufarsvandamál sem getur verið erfitt að takast á við. Bæði aukast líkurnar á að einstaklingur fái hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki eða krabbamein en svo getur það líka haft afgerandi áhrif á stoðkerfið að þurfa að burðast með mjög mikla aukabyrgði.