Mynd: The Order of the Good Death
Mynd: The Order of the Good Death

HIV er eins og flestir vita ólæknandi veirusjúkdómur sem leggst á ónæmiskerfi smitaðra einstkalinga og veldur því sem kallað er alnæmi. Með aukinni þekkingu hefur meðferðarúrræðum við HIV fleygt fram og leitt til þess að í dag lifa HIV smitaðir einstaklingar svo gott sem eðlilegu lífi og ná sjaldan á lokastig sjúkdómsins. Þetta þýðir að einstaklingar sem eru smitaðir af veirunni lifa fram á gamals aldur, á sama hátt og þeir sem ekki hafa smitast, gefið að engir aðrir kvillar dragi þá til dauða.

Því miður hafa HIV smitaðir einstaklingar ekki getað notið þeirra réttinda að gefa eða þiggja líffæri eins og aðrir heilbrigðir einstaklingar. Það er auðvitað skiljanlegt að hamla HIV smituðum frá því að gefa ósmituðum einstaklingum líffæri. Hins vegar er ekki margt sem ætti að mæla gegn því að smitaður einstaklingur geti gefið öðrum smituðum einstaklingi líffæri, en slíkar líffæragjafir hafa ekki verið stundaðar.

Nú hafa orðið straumhvörf í þeim málum, en Johns Hopkins spítalinn í Baltimore fékk nýlega leyfi frá Bandarískum yfirvöldum til að framkvæma líffæraígræðslu milli HIV smitaðra einstaklinga. Þetta þýðir að HIV smitaðir mega gefa líffæri ef þeginn er einnig HIV smitaður.

Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir HIV smitaða sem einnig þurfa að treysta á líffæragjafir þar sem þeir hafa hingað til færst neðarlega á listann einmitt vegna undirliggjandi sjúkdóma. Með nútímameðferðarúrræðum er þó ekki ástæða til að ætla að HIV smitaðir lifi mikið skemur en þeir sem ekki eru smitaðir svo það eru góðar líkur á að líffærið verði vel nýtt ef svo má segja. Þetta eru ekki síður góðar fréttir af þeim sökum að þó HIV sé haldið niðri í smituðum einstaklingum þá virðist tilvist veirunnar samt hafa áhrif baráttu smitaðra einstaklinga við skerta líffærastarfsemi.