Mynd: Doubtful news
Mynd: Doubtful news

Flestir vita hvað bólusetningar eru mikilvægar fyrir heilsu okkar. Við hverja bólusetningu hjálpum við líkamanum að búa til vörn gegn smitsjúkdómum sem ekki er æskilegt að fá. Helst finnst okkur mikilvægt að bólusetja gegn sjúkdómum sem geta valdið alvarlegum skaða eins og t.d. dauða, þess vegna er t.d. lögð miklu meiri áhersla á þær bólusetningar sem við fáum sem börn heldur en t.d. inflúensubólusetningu.

Þegar við erum bólusett kynnist líkaminn okkar sjúkdómsvaldinum, eins og t.d. veiru, án þess að verða lasinn. Við fáum í okkur lítið magn af veikluðum eða dauðum sýkli, nægilega mikið til að ónæmiskerfið hefst handa við að búa til mótefni. Þess vegna getur ónæmiskerfið strax ráðist á sýkilinn, án þess að hann nái að valda skaða, ef við hittum hann seinna á lífsleiðinni.

En bólusetningin verndar ekki bara okkur sem einstakling. Þegar nægilega margir hafa fengið bólusetningu myndast það sem kallast hjarðónæmi. Hjarðónæmið er ekki síður mikilvægt markmið bólusetningar vegna þess að sumir mega ekki fá bólusetningu, t.d. vegna ofnæmis. Fyrir þá einstaklinga er mjög mikilvægt að sem flestir í kringum þá séu bólusettir til að takmarka líkurnar á því að óbólusettir einstaklingar smitist. Hjarðónæmi er vel úskýrt í þessu stutta myndbandi hér að neðan.

Sumar veirur sem við erum bólusett fyrir í æsku eru orðnar svo sjaldgæfar að við sjáum aldrei þá sjúkdóma sem þær geta valdið. Sem betur fer því margar þeirra eru mjög hættulegar. Þær valda ekki bara vægu kvefi eða beinverkjum heldur getur sjúkdómurinn verið mjög sársaukafullur og skilið eftir sig varanlegan skaða. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að við hjálpumst öll að við að viðhalda hjarðónæmi fjöldans, til að vernda okkur sjálf og alla hina í kringum okkur.