fetus2

Hjartsláttur og raddir sem fóstur heyrir í móðurkviði örva þær stöðvar heilans sem skynja og vinna úr hljóði. Lengi hefur verið þekkt að fyrirburar eru í meiri hættu á að glíma við vandamál tengd heyrn en ný rannsókn, unnin á Harvard Medical School í Boston, gefur vísbendingar um hvernig mætti koma í veg fyrir það.

Í rannsókninni voru teknir fyrir 40 fyrirburar. Helmingur fyrirburanna fengu að hlusta á upptökur af söng og hjartslætti móður sinnar. Á upptökunni var reynt að líkja eftir aðstæðum í móðurkviði til dæmis með því að taka út hljóð með háa tíðni. Samanburðarhópurinn fékk þá meðferð sem venjulega er boðið uppá fyrir fyrirbura. Eftir einungis 30 daga sást munur á byggingu heila barnanna á sónarmyndum.

Þessi rannsókn er þó ekki að fullu gallalaus, sem dæmi tókst ekki að fá nægilega góðar sónarmyndir af heilum barnanna fyrir meðferð. Þessar niðurstöður eru þó rökréttar miðað við það sem vitað er um þroskun heyrnarinnar.

Amir Lahav, stjórnandi rannsóknarinnar stefnir á að gera stærri og nákvæmari rannsókn til að staðfesta þessar niðurstöður. Vonandi munum við í framtíðinni sjá úrræði við meðferð fyrirbura sem stuðla að bættri heyrn þeirra.

Hér má lesa fréttaskýringu um málið.