Mynd: Resoved Hypnotherapy
Mynd: Resoved Hypnotherapy

Við sjáum reglulega fyrirsagnir þar sem hófleg drykkja er dásömuð þar sem hún eykur lífslíkur okkar og dregur úr líkum á hinum ýmsu sjúkdómum. Hófleg drykkja er þá oft skilgreind sem allt að tveir áfengir drykkir á dag, og er slík neysla sett fram sem allra meina bót. Í raun hafa fjölmargar rannsóknir verðir gerðar í þessum efnum en þær sýna ekki allar sömu fylgnina við langlífi. En hver gæti ástæðan verið?

Þegar 87 slíkar rannsóknir voru skoðaðar kom í ljós að jákvæð áhrif drykkju sáust einungis í þeim rannsóknum þar sem viðmiðunarhópur innihélt einstaklinga sem höfðu af einhverjum ástæðum hætt að drekka. Ástæður fyrir því að fólk hættir að drekka geta verið margvíslegar en oftar en ekki eru þær heilsufarslegar.

Í stuttu máli má því segja að uppbygging rannsóknanna skipti höfuðmáli ef jákvæð áhrif drykjunnar eiga að koma fram. Þ.e.a.s. þegar fólk sem drekkur allt að tvö glös af áfengi á dag er borið saman við réttan hóp af fólki þá virðast hóflegir drykkjumenn koma betur undan lífsins ólgusjó en þeir sem ekki flokkast sem drykkjumenn. Þegar þeir sem drekka mjög sjaldan eru teknir út fyrir sviga og bornir saman við aðra hópa þá virðast þeir reyndar koma best út. Því miður er það svo að þegar uppbygging rannsóknar hefur svona mikil áhrif á niðurstöður hennar þá eru niðurstöðurnar ekki sérlega áreiðanlegar.

Þú, lesandi góður, gætir nú verið að velta fyrir þér hvaða lífsreglur er nú verið að setja þér varðandi áfengisneyslu. Slíkar lífsreglur færðu því miður ekki hér en það er að sjálfsögðu ekki gott að drekka í óhófi, og að drekka 1-2 drykki er mun betri en 5-6 drykkir á dag. Hins vegar ættum við að fara varlega í að oftúlka niðurstöður rannsókna sem benda til þess að drykkja sé á einhvern hátt góð fyrir heilsuna. Allt er gott í hófi, því það er heldur ekki hollt að missa sig í boðum og bönnum. Munum bara að ganga hægt um gleðinnar dyr.