headtransplant

Fólk sem verður fyrir varanlegum taugaskaða eygir nú kannski þann möguleika að fá hreyfigetuna á ný með ágræddum líkama. Hugtakið líffæragjöf fær þannig miklu stærri og breiðari merkingu. Vísindamaður að nafni Sergio Canavero hefur gefið út grein í veftímaritinu Surgical Neurology International, þar sem hann lýsir hvernig hægt er að græða nýtt höfuð á líkama, eða nýjan líkama á höfuð. Hann stefnir á að framkvæma aðgerðina innan tveggja ára.

Aðgerðin byggir í grófum dráttum á tveimur aðalþáttum, það er að skera mænuna snöggt með skörpum hlut til að koma í veg fyrir skemmdir á henni og leggja svo áherslu á endurvöxt gráa efnisins í mænunni en minni áherslu á hvíta efnið. Þetta gengur þvert á hugmyndir okkar um virkni taugakerfisins, þar sem hvíta efnið sér um að flytja boð á milli, enda er það samsett úr taugasímum meðan gráa efnið vinnur úr boðunun, en þar eru taugafrumurnar tengdar saman.

Til að örva tengingu mænanna, þ.e. mænu frá líkama og mænu frá höfði, ætlar hann m.a. að nota kítósan. En kítósan er fjölsykra sem hefur t.d. verið einangruð úr rækjuskel hér á landi af líftæknifyrirtækinu Primex. Kítósan hefur margvísleg áhrif og hefur verið notað við meðhöndlun sára, en einnig sem fæðubótarefni og ýruefni í matvælaframleiðslu. Virkni kítósans sem hér er vísað í er sennilega sú saman og notast er við, við meðhöndlun sára.

En er þetta rauhæft? Greinin er birt í tímariti sem nýverið fékk aðgang að stærsta gagnabanka vísindanna, Pubmed á NCBI. Tímaritið á því enn eftir að sanna gildi sitt. Margt af því sem Sergio Canavero vísar í, er raunverulega notað í vefja-verkfræði, þar sem vefir eru byggðir upp á ný til dæmis úr stofnfrumum. En jafnvel í þeim fræðum eru vísindamenn enn að reka sig á vandamál, þó hér sé aðeins verið að vinna með einstaka vefi.

Höfuðið er ekki einungis fest á líkamann með mænunni, við tengjum þessa tvo hluta einnig saman með vélinda, bakra og óteljandi mörgum æðum bæði slagæðum og bláæðum, svo ekki sé minnst á vöðva, sinar og húð sem bindur líkamann saman. Það mætti því segja að lausn Sergio Canavero á því hvernig má tengja saman mænur úr tveimur einstaklingum sé í besta falli einföldun á þeirri ótrúlega flóknu uppbyggingu sem hálsinn er. Í dag eru ekki enn til góðar aðferðir til að laga taugaskaða, því mætti segja að með höfuðágræðslu sé verið að byrja á öfugum enda og réttara væri að beina fjármagni og hugviti annað.

Ef þessi aðgerð sem Sergiou Canavero vísar í verður einhvern tíman að veruleika þá vekur hún einnig upp áleitnar siðferðilegar spurningar. Hvar liggja mörk líffæragjafar? Er í lagi að græða heilan líkama á höfuð til að hjálpa einstakling sem getur ekki hreyft sig? Hver er líffæraþeginn, er það sá sem fær nýtt höfuð eða sá sem fær nýjan líkama? Getum við þá að kannski lifað að eilífu ef við yngjum bara líkama okkar?

Eitt er víst, að Sergiou Canavero er ekki að leggja sitt af mörkum til að bæta ímynd brjálaða vísindamannsins.

Greinin er opin á internetinu og hér er hægt að lesa hana í heild sinni.