chocolate1

Nú geta súkkulaðiaðdáendur glaðst, vísindamönnum hefur tekist að þróa aðferð til að búa til súkkulaði sem skilur eftir meira af andoxandi pólífenólum án þess að það bitni á bragðinu – þvert á móti bragðast súkkulaðið betur.

Við venjulega súkkulaðigerð fer kakóbaunin í gegnum langt ferli og tapar í leiðinni mikið af næringarefnum sínum. Má þar helst nefna pólífenól sem eru andoxandi efni og eru af sumum talin geta hjálpað til við að koma í veg fyrir krabbamein og hjartasjúkdóma. Í nýju tækninni er einu skrefi bætt við framleiðsluferlið til að halda eftir andoxunarefnunum. Aukaskrefið er ekki flókið en þá eru kakóbelgirnir, sem hýsa kakóbaunirnar, geymdir í nokkra aukadaga eftir að þeir eru týndir og áður en kakóbaunirnar eru fjarlægðar og þurrkaðar.

Í rannsókninni, sem framkvæmd var við háskólann í Ghana, voru 300 kakóbelgir geymdir mislengi og kom í ljós að best var að geyma þá í sjö daga áður en fræin voru fjarlægð. Vísindamennirnir telja að ástæðan fyrir því að þessi aðferð virkar svona vel sé að baunirnar hafa meiri tíma til að draga í sig næringarefni frá belgnum en að tíminn sé ekki svo langur að efnin byrji að brotna niður.

Annar þáttur sem skoðaður var voru áhrif ristunar sem hefur lengi verið talinn hafa neikvæð áhrif á næringargildi baunanna. Þær baunir sem komu bestu út úr þessum hluta rannsóknarinnr voru þær sem voru ristaðar við lægra hitastig (117ºC í stað 120-130ºC) í lengri tíma (45 mínútur í stað 10-20 mínútna).

En góðu fréttirnar enda ekki þar. Auk þess að hafa hærra næringargildi var súkkulaðið sem búið var til með þessari nýju aðferð sætara. Talið er að ástæða þess sé að baunirnar, sem eru bitrar, voru lengur í snertingu við sætt aldinkjöt belgjanna. Nú stefnir rannsóknarhópurinn að því að skoða tæknina enn betur til að búa til enn þá betra og næringaríkara súkkulaði.

Heimild: EurekAlert