homopathy

Eru óhefðbundnar lækningar hjálplegar, skaðlegar eða kannski bara algjörlega hlutlausar? Óhefðbundnar lækningar eru jafnmargar og þær eru mismunandi en eiga það sameiginlegt að hafa ekki fengið viðurkenningu vísindasamfélagsins. Hómópatía er ein slíkra meðferða en hún var einmitt til skoðunar hjá Ástralska National Health and Medical Research Council (NHMRC) á dögunum.

Hómópatía er meðferð sem miðar á að örva kraft líkamans til að lækna sig sjálfur. Þá eru efni, stundum skaðleg efni, gefin sjúklingnum í mjög litlum skömmtum og byggir meðferðin á því að minningar efnisins yfirfærist sjúklinginn sem gefur honum styrk til að takast á við kvillann.

Í samantekt NHMRC fóru höfundar yfir 225 greinar sem birtar hafa verið um rannsóknir á hómópatíu og tóku saman áhrifin meðferðarinnar. Að auki var rætt við fólk tengt hómópatíu sem og almenning og farið yfir verkferla sem varða óhefðbundnar lækningaaðferðir. Niðurstaðan var sú að engar vísbendingar eru um að áhrif hómópatíu séu meiri en mælast að meðaltali í viðmiðunarhópum sem fá lyfleysu í lyfjarannsóknum.

Lyfleysuáhrif eru vel þekkt í rannsóknum en þau þýða í stuttu máli að trú sjúklinga, á lækningamátt efnisins sem verið er að prófa, er svo sterk að áhrifin eru mælanleg. Lyfleysuáhrif skýra oft stóran hluta virkni lyfja og jafnvel hafa verið uppi hugmyndir um að nýta þessi áhrif sem meðferð við sjúkdómum þar sem engin önnur úrræði eru til staðar.

Við vinnslu samantektarinnar rákust höfundar ekki á margar traustvekjandi rannsóknir. Rannsóknir sem unnar hafa verið á hómópatíur eru margar hverjar illa uppbyggðar eða óáreiðanlegar vegna fámennis þáttakenda eða skorts á viðmiðunarmeðferð. Aðferðin byggir því nær eingöngu á trú meðaferðaraðila og meðferðarþega á gildi hómópatíu. Gildar og áreiðanlegar rannsóknir á virkni er lykilþáttur í því að meðferð fái viðurkenningu innan vísindasamfélagsins.

Það er mikilvægt að halda upplýsingum um gildi meðferða til haga vegna þess að oft er um gífurlegar fjárhæðir að ræða sem fólk leggur í óhefðbundnar lækningar þegar veikindi blasa við. Að auki geta óhefðbundnar lækningar haft skaðleg áhrif, sérstaklega ef sjúklingur kýs að hafna viðurkenndri meðferð þar sem sýnt hefur verið fram á árangur og kýs óhefðbundnar lækningar í staðinn.