2013-04-17_16-58-23_371-21

Eins og þeir sem vinna innan vísindageirans þekkja er ekki hægt að stunda rannsóknir fyrir alvöru nema að nægir fjármunir séu fyrir hendi. Því fer mikill tími vísindamanna í það að sækja um styrki svo þeir geti stundað rannsóknir sínar. Doktorsneminn Marcela Uliano da Silva notaði nýstárlega aðferð til að fjármagna rannsóknir sínar: hópfjármögnun.

Á síðustu árum hafa fjölmargir einstaklingar og hópar notað hópfjármögnunarsíður til að fjármagna hin ýmsu verkefni. Þetta mun þó vera í fyrsta skipti sem hópfjármögnun er notuð til að fjármagna doktorsverkefni í líffræði svo vitað sé.

Það var leiðbeinandi da Silva sem stakk upp á því að nota hópfjármögnun til að fjármagna verkefnið. da Silva stundar nám við Federal University of Rio de Janeiro. Verkefnið snýst um að skoða genamengi kræklinga af tegundinni Limnoperna fortunei sem er ágeng tegund í Amazonfljóti. Eins og gefur að skilja er genamengi kræklinga kannski ekki það sem almenningur hefur mestann áhuga á svo da Silva og leiðbeinandi hennar útbjuggu 5 mínútna langt myndband sem sagði frá áhrifum verkefnisins á hátt sem höfðaði frekar til almennings.

Fjármögnunin fór fram úr björtustu vonum en da Silva tókst að safna meira en 20.000 Bandaríkjadala sem er meira en nægur peningur til að fjármagna rannsóknina.

da Silva telur að hópfjármögnun verði mikilvægur til að fjármagna rannsóknir í framtíðinni enda hafi almenningur áhuga á að taka þátt í vísindum. Nú er bara að sjá hvaða íslensku vísindamenn láta reyna á hópfjármögnun fyrstir!

Tengdar fréttir:
Erfðamengi internetstjörnu raðgreint
Síðasti hvíti nashyrningurinn vaktaður allan sólarhringinn
Nýr goggur handa slösuðum fugli