Mynd: North Texas Kids
Mynd: North Texas Kids

Herferðin Útmeða, sem Geðhjálp og Rauði krossinn standa fyrir til að auka vitundarvakningu landsmanna á sjálfsvígum ungra karlmnna hefur vonandi ekki farið framhjá nokkrum manni. Sjálfsvíg virðast oft vera eini kostur fólks til að losna undan þjáningum, oft þjáningum sem koma til vegna eineltis eða annarra áfalla. Sjálfsvíg eru þó sem betur fer ekki eini kosturinn og margar leiðir í boði ef fólk leitar sér hjálpar. Nú hefur ný rannsókn sýnt fram á að ungmenni sem hafa orðið fyrir einelti eða áþekkum áföllum eru 23% ólíklegri til að taka eigið líf ef þeir stunda reglubundna hreyfingu.

Rannsóknin var unnin við The university of Vermont og byggir á spurningalista sem lagður var fyrir rúmlega 13.500 ungmenni í bandarískum skólum. Ungmennin voru m.a. spurð útí líðan sína, hreyfingu og hvort þau höfðu einhvern tíman upplifað einelti.

Í ljós kom að um fimmti hver unglingur í Bandaríkjunum hefur upplifað einelti, 30% þátttakendanna höfðu upplifað leiða síðastliðið ár og 8,2% höfðu upplifað sjálfsvígshugsanir. Þegar umhverfisþættir voru skoðaðir í samhengi í líðan ungmennanna sást greinileg fylgni milli vanlíðaninnar og eineltis. Að sama skapi var marktækur munur á þeim sem höfðu upplifað einelti og stunduðu hreyfingu fjórum sinnum í viku og þeirra sem upplifðu einelti en hreyfðu sig ekki. Þeir sem stunduðu reglubundna hreyfingu leið að jafnaði mun betur en þeir sem ekki hreyfðu sig.

Þessar niðurstöður koma ekki mikið á óvart, hreyfing er góð á svo marga vegu. En nú þegar það liggur fyrir svart á hvítu er kannski rétt að nýta þessar upplýsingar börnunum okkar í hag. Það má gera með því að passa uppá að þau fái næga hreyfingu í skólanum, að öll börn hafi jafnan rétt til að stunda íþróttir í frístundum og með meðvitund foreldra á því hversu mikilvæg hreyfing er fyrir líkamlega og andlega líðan barnanna okkar. Sem betur fer standa Íslendingar sig ágætlega í þessum efnum, má þá t.d. nefna frístundastyrk sem mörg sveitafélög bjóða uppá, en höfundar rannsóknarinnar benda á að um leið og þessar niðurstöður eru birtar eru skólayfirvöld í Bandaríkjunum að skerða íþróttaiðkun á skólatíma vegna fjárskorts.