old-people-working-out

Í háskólanum í Vín fer nú fram rannsókn á hreyfingu, næringu og almennum lífsháttum eldri borgara. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sem er unnin í samstarfi við Wiener Hilfswerk og Sportunion Österreich, gefa til kynna að hreyfing á efri árum auki lífsgæði til muna.

Rannsóknin er þannig uppbyggð að sjálfboðaliðar, sem eru komnir yfir fimmtugt, heimsækja eldra fólk, eldra en 65 ára, aðstoða þau og veita félagsskap við styrktaræfingar. Æfingarnar fara fram vikulega og árangurinn stendur ekki á sér. Handstyrkur eldri borgara sem taka þátt í rannsókninni hefur að meðaltali aukist um 20%. Marktæk aukning hefur einnig orðið á t.d. liðleika, vitrænni getu og lífsgæðum.

Samstarfsfélagar Thomas Dorner sem stjórnar rannsókninni mældu einnig albumin í blóði, en það er prótín sem mælt er í blóði til að meta næringarupptöku fólks. Með aldri minnkar oft magn albumins í blóði en í rannsókn Thomas Dorner tók magn þess að aukast á ný.

Ávinningurinn af styrktaræfingunum er mikill, ekki bara í auknum handstyrk heldur veita allir þessir þættir samanlagt fólki aukna færni til að sjá um sig sjálft, búa lengur heima og lifa innihaldsríkara lífi. Aukinn styrkur, liðleiki og hreyfigeta gefur eldra fólki tækifæri til að stunda félagslíf í meira mæli en annars, þar sem ótti þeirra við t.d. að detta getur hamlað þeim frá því að fara út á meðal fólks.

Rannsóknir og átök sem þessi eru nauðsynleg í nútíma samfélögum þar sem meðalaldur fólks er að hækka og úrræðum fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda virðist ekki vera að fjölga. Til að gefa fólki tækifæri á hamingjusömu ævikvöldi þarf kannski að fyrirbyggja að elli kelli vinni allt of snemma.