Mynd: UW Medicine
Mynd: UW Medicine

Elliglöp eru óhjákvæmilegur fylgikvilli hækkandi aldurs eða því sem kallast gangur lífsins. En þó við séum flest dæmd til að missa smám saman minnið þá virðast vera ákveðnar vísbendingar þess efnis að nú sé að draga úr minnistapinu.

Langtíma gagnasöfnun sem framkvæmd er fyrir tilstillan Farmingham Heart Study í Massachusetts geymir nú gögn um heilsu hluta íbúa ríkisins frá því árið 1940. Þegar rannsóknarhópur við Boston University fékk að rýna í gögnin kom í ljós að fólki sem hafði tekið þátt í Farmingham Heart Study taldi sig að meðaltali upplifa minni elliglöp eftir því sem leið á gagnasöfnunina. Þ.e.a.s. árið 1980 upplifðu 3,6% þáttakanda elliglöp, árið 1990 hafði þeim fækkað niður í 2,8%, 2,2% árið 2000 og árið 2010 var hlutfall þeirra komið niður í 2,0%. Samhliða þessum lækkunum hefur tilfellum hjarta- og æðasjúkdóma fækkað, en rannsóknin er auðvitað byggð á gögnum sem fengin eru úr rannsóknum á slíkum kvillum.

Hver ástæðan er fyrir þessari minnkun á minnistapi er ekki ljóst. Athygli vakti að þeir sem töldu sig upplifa minni elliglöp höfðu allir lokið a.m.k. því sem er sambærilegt við íslenska framhaldsskóla (high school). Það má leiða líkur að því að nám geti að einhverju leiti haft áhrif á starfsemi heilans og þannig stuðlað að því að hann haldist virkur, einnig gæti verið að þeir sem hafa náð að mennta sig séu ólíklegri til að lifa við bág kjör og eigi því auðveldara með að stunda heilbrigðan lífsstíl, að auki gæti ástæðan fyrir þessari minnkun verið aukaverkun af meðhöndlun hjarta- og æðasjúkdóma.

Rétt er að taka fram að þessi rannsókn takmarkast við þýði úr Massachusetts. Til að staðfesta niðurstöðurnar þyrfti að framkvæma sambærilega rannsókn í öðru og misleitara þýði. Það verður þó að segjast að allar vísbendingar á borð við þessar sem gefa okkur von um auðveldara ævikvöld eru vel þegnar. Hægt er að lesa um rannsóknina hér en hún var birt í tímaritinu The New England Journal of Medicine fyrr í þessum mánuði.