Hundaeign hefur lengi tíðkast meðal manna og að sama skapi lengi verið uppspretta rannsókna ótal vísindahópa. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þess að eiga gæludýr bæði á líkamlega og andlega heilsu. Sænsk rannsókn sem unnin var við Uppsala Universitet er þar engin breyting á en hún sýnir tengsl hundaeignar og minni tíðni hjarta- og æðasjúkdóma

Í rannsókninni eru bornir saman tveir stórir sænskir gagnagrunnar, annars vegar gagnagrunnur sjúklinga sem leita sér hjálpar á sænskum sjúkrahúsum og hinn er hundaeigendaskrá Svíþjóðar. Með því að keyra saman gögn úr þessum gagnagrunnum gat hópurinn séð hversu há tíðni ýmissa sjúkdóma var hjá þeim hópi fólks sem á hunda sem gæludýr, samanborið við fólk sem ekki á gæludýr.

Í ljós kom að þeir sem eiga hunda eru mun ólíklegri til að deyja af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Þeir eru reyndar yfirhöfuð ólíklegri til að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Það sem meira er, þá eru einhleypingar sem eiga hund í enn minni áhættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma og það sama á við um fólk sem hefur valið að eiga hunda af tegundunum terrier eða retriever.

Þetta eru sannarlega áhugaverðar niðurstöður þó engan veginn sé hægt að segja til um hvers vegna þessi fylgni er til staðar. Eins og áður hefur komið fram hér á Hvatanum er fylgni ekki það sama og orsakasamhengi og með rannsókn sem þessari er því miður ekki hægt að svara til um hvort raunverulegt orsakasamhengi er til staðar.

Hópurinn er þó með nokkrar tilgátur um af hverju þessi munur gæti stafað og nefnir þá að hundaeign krefst oft daglegrar hreyfinga, eins og göngutúr með hundinn. Að auki hafa rannsóknir sýnt að hundaeign getur glatt einstaklinga og minnkað streitu sem er líklegt til að draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Auðvitað getur líka einhver annar þáttur verið sameiginlegur þessu fólki sem bæði á hunda og er síður líklegt til að fá hjarta- og æðasjúkdóma, sá þáttur verður þó ekki undir smásjánni hér. En þó hundaeign geri mann kannski ekki ódauðlegan þá er samt enn hægt að halda því fram að hún geri líf manns að minnsta kosti skemmtilegra.