Mynd: Allergic Living
Mynd: Allergic Living

Mörgum hefur flogið í hug að ofnæmi ýmis konar virðast vera að aukast meðal barna og líkurnar á því að eignast barn sem fær ofnæmi eru því miður ansi miklar. Skýringin á þessu hefur enn ekki fundist en hreinlæti hefur oft komið til tals þegar þessi mál eru rædd. Er þá átt við að nútímabörn búið við svo mikið hreinlæti að ónæmiskerfi þeirra komist aldrei í snertingu við neina ónæmisvaka og hafa því engar forsendur til að þjálfa sig. Nú hefur ný risastór rannsókn verið gerð á sænskum börnum sem bendir til þess að þessi hreinlætiskenning sé að minnsta kosti að einhverju leiti sönn þegar kemur að astma.

Rannsakendur höfðu aðgang að gagnabanka sem býr yfir öllum heilsufarsupplýsingum Svía. Að auki er til gagnabanki í Svíþjóð þar sem hundaeign er skráð. Vísindahópurinn samkeyrði þessar upplýsingar fyrir meira en milljón börn til þess að skoða hvort hundaeign foreldra hefði áhrif á líkurnar á því að þróa með sér astma.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að börn sem alast upp á bóndabæjum, þ.e. innan um dýr, eru helmingi ólíklegri til að fá astma en börn sem ekki alast upp í sveit. Margir vísindahópar hafa reynt að skoða hvort húsdýr á borð við hunda eða ketti geti haft svipuð áhrif, en enginn hefur áður getað leikið sér með svona stóran gagnabanka. Vegna þess að börnin sem rannsóknin tekur til eru fleiri en milljón er auðveldlega hægt að leiðrétta fyrir þáttum eins og búsetu, þjóðfélagsstöðu og erfðaþáttum.

Í ljós kom að börn sem alast upp með hund á heimilinu eru 15% ólíklegri til að þróa með sér astma en börn sem ekki alast upp með hundum. Þessi rannsókn sýnir að sveitaáhrifin svokölluðu ná inní borgir líka, til þeirra sem eiga gæludýr eða a.m.k. hunda. Rannsóknin var samstarfsverkefni Karolinska Institutet og Uppsala Universitet, en hún var birt á dögunum í tímaritinu JAMA Pediatrics.