148155-german-shepherd

Hundar eru þekktir fyrir það að hafa ótrúlegt lyktarskyn og hafa menn nýtt sér það á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Samkvæmt grein rannsóknarhóps á Ítalíu, sem var birt í Journal of Urology, getur verið að í framtíðinni verði hægt að nýta þetta magnaða lyktarskyn í krabbameinsleit.

Tveir kvenkyns schäfer hundar voru látnir lykta af 900 þvagsýnum manna sem voru ýmist greindir með blöðruhálskrabbamein (360 menn) eða ekki (540 menn). Þótt ótrúlegt megi virðast tókst báðum hundunum að greina sýnin rétt í yfir 90% tilfella. Ekki er ljóst hvað það er nákvæmlega sem hundarnir greina og hvort það sé einn þáttur eða blanda nokkurra efna.

Rannsóknarhópurinn tekur fram að frekari rannsókna sé þörf til þess að meta hvort hægt sé að nota hunda til að greina blöðruhálskrabbamein. Eins og er er krabbamein í blöðruhálskirtli greint með PSA prófi (Prostata Specific Antigen), skoðun og vefjasýni. Ef það reynist raunhæft að nota hunda sem hluta af greiningarferlinu gæti það einfaldað greininguna til muna og jafnvel sparað háar fjárupphæðir.

Heimild: The Guardian