color-poop

Þó svo að hundar setji upp skömmustulegan svip þegar þeir hafa gert eitthvað af sér sýna rannsóknir að ástæðan er ekki vegna þess að þeir skammist sín í raun og veru.

Að sögn Susan Hazel, sérfræðingi í dýralæknavísindum, segir skömmustulegi svipurinn meira til um samband manns og hunds í gegnum tíðina en getu hunda til að finna til sektarkenndar. Hér er frekar um að ræða viðbrögð sem hundar hafa þróað sem svar við reiði eiganda síns. Hazel segir að í raun hegði hundar sér á þennan hátt til að sýna undirgefni þegar eigandi þeirra reiðist þeim sem við mannfólkið túlkum síðan sem sektarkennd.

Hazel bendir einnig á að hundar séu góðir í því að lesa líkamstjáningu manna og geti þess vegna oft metið hvað það er sem eigandinn hugsar, jafnvel áður en hann veit það sjálfur.

Rannsóknir á þessu sviði hafa einmitt bent til þess að hundar bregðist frekar við viðbrögðum eiganda síns en að finna fyrir sektarkennd. Í rannsókn sem gerð var árið 2009 af Alexandra Horowitz og samstarfsmönnum hennar voru samskipti milli hunda og eigenda þeirra skoðuð. Hundarnir voru skildir eftir einir í herbergi með hundanammi. Í sumum tilfellum leyfðu vísindamennirnir hundunum að borða nammið en í öðrum var nammið tekið frá hundunum en eigendum sagt að þeir hafi étið það.

Í ljós kom að hundarnir sýndu skömmustulega hegðun þegar eigendurnir skömmuðu þá, hvort sem þeir voru sekir eða ekki. Horowitz segir að skömmustulegan svip hunda megi því fremur túlka sem svo að hundarnir séu að segja “ekki hegna mér fyrir það sem þú heldur að ég hafi gert” heldur en raunverulega skömm.

Þannig að þó að myndir á internetinu af skömmustulegum hundum séu skemmtilegar bendir ekkert til þess að þeir skammist sín í alvörunni.

Heimild: ScienceAlert