Mynd: NASA
Mynd: NASA

Mikið hefur verið fjallað um heimkomu geimfarans Scott Kelly til Jarðar í vikunni enda dvaldi Kelly hvorki meira né minna en 340 daga í Alþjóðageimstöðinni (ISS). Í ofanálag er Kelly tvíburi og verða hann og bróðir hans í framhaldinu rannsakaðir í þeim tilgangi að læra meira um það hvernig hægt er að gera mannfólki kleift að dvelja fjarri Jörðu í lengri tíma.

Þó svo að geimferðir manna séu spennandi taka þær sinn toll á líkamann. Augljósasta dæmið er líklega þyngdaleysið sem hefur mikil áhrif á bæði bein og vöðva. Geimfarar tapa um 1-2% af beinvef í hverjum mánuði sem er svipað og hjá þeim sem glíma við beinþynningu. Til þess að setja þetta í samhengi gæti geimfari sem dvelur í ISS í eitt ár tapað allt að 20% af beinvef í útlimum og mjöðmum. Svipaða sögu er að segja um vöðva og geta geimfarar tapað 20% af vöðvamassa sínum á aðeins 5-11 dögum. Til þess að sporna gegn þessu mikla vöðvatapi er mikilvægt að geimfarar stundi líkamsrækt og eru tveir og hálfur tímar á dag tileinkaðir líkamsrækt í ISS.

Annað vandamál sem geimfarar glíma við er aukin geislun frá sólu. Geislunin í ISS er til dæmis um 40 sinnum meiri en meðalgeislun sem manneskja í Bandaríkjunum verður fyrir á einu ári. Geislunin getur skaðað beinmerg sem hefur áhrif á blóð og ónæmiskerfið. Einnig eru geimfarar líklegri en aðrir til að glíma við augnvandamál og talið er að löng dvöl í geimnum kunni að leiða til krabbameina og geti jafnvel hraðað þróun Alzheimer’s.

Önnur áhrif geimferða eru til dæmis að blóðmagn í líkamanum minnkar um allt að 22% sem kann að valda lakari súrefnismettun í vefjum líkamans auk einkenna á borð við svima og örmögnun. Geimfarar hafa einnig margir talað um að bragðskyn þeirra breytist í geimferð og getur það stundum haldist þannig eftir að komið er til jarðar.

Fætur eru ekki undanskildir áhrifum geimsins og geta ristar orðið viðkvæmar á meðan iljar tapa sigginu á nokkrum mánuðum. Að lokum hækkar geimfarar í lofti og er Kelly til að mynda 5 cm hærri í dag en áður en hann fór frá Jörðu en hæðaraukningin kemur að öllum líkindum til vegna skorts á þyngdarafli.

Það er því að mörgu að huga þegar kemur að geimferðum og mikið verk fyrir höndum ef koma á mannfólki á Mars. Slík geimferð myndi þýða að geimfarar yrðu fyrir 100 sinnum meiri geislun en í ISS auk þess sem ferðin til Mars og tilbaka gæti tekið allt að þrú ár og væru áhrifin því meiri en í styttri ferðum.