beauty

Kynþokki og fegurð er ótrúlega eftirsótt fyrirbæri og þá sérstaklega meðal kvenna. Margar reyna að leita uppi töfralausn, pillu eða aðhaldsklæðnað til að ýkja það sem telst fallegt eða fela það sem telst ljótt. Alls staðar í kringum okkur eru myndir sem kenna okkur hvað það er sem telst fallegt, auglýsingaskilti, sjónvarpsþættir, fegurðarsamkeppnir og svona mætti lengi telja.

En hver er hin raunverulega formúla að kynþokka og fegurð? Loksins hafa vísindamenn búið til kerfi þar sem hægt er að skoða fegurð í þróunarfræðilegu samhengi. Verkefnið fékk heitið BodyLab. Hópurinn mældi 24 líkamsbreytur sem voru óháðr hverri annarri, á 20 konum og notuðu þessar mælingar til að búa til 120 stafræna einstaklinga. Til að velja fegursta fólkið komu internet notendur til sögunnar, þeir völdu fegursta fólkið sem síðan bjó til næstu kynslóð í sýnderveruleika BodyLab. Af þeim 24 breytum sem hópurinn lagði upp með breyttust 10 þeirra marktækt á þeim 7 kynslóðum sem voru framkvæmdar.

Nýverið gaf hópurinn út grein með niðurstöðum sínum um fegurð kvenna í tímaritinu Evolution and Human Behavior. Rob Brooks skrifaði skemmtilegan pistil um rannsóknina, en hann vann sjálfur að henni. Niðurstöðurnar eru kannski bara eins og við mátti búast, fegurð er samsett fyrirbæri úr mörgum þáttum. Fegurð felst ekki í réttu hlutfalli mjaðma og mittis og fegurð felst heldur ekki í réttum BMI stuðli. Fegurð er breytileg og engin ein mæling er til á hana.

Næst á dagskrá hjá hópnum er að klára aðra sambærilega rannsókn sem snýr að karlmönnum. Inná heimasíðu hópsins er hægt að taka þátt í verkefninu og kjósa hvaða líkami er fallegastu í hverri kynslóð stafrænu fjölskyldanna sem verða til hjá BodyLab.