dinosaur

Það getur verið erfitt að framkvæma atferlisrannsóknir á útdauðum dýrum, eins og risaeðlum. Hægt er að nýta vitneskju um nánustu ættingja eins og eðlur eða fugla til að giska á ýmislegt en munurinn á þeim getur verið gríðarmikill. Sem dæmi tekur það eðlur tvöfalt lengri tíma að klekja út eggjum en fugla.

Til að hjálpa sér að svara slíkum spurningum notaðist vísindahópur steingerð risaelðuegg. Þau eru ekki mörg risaeðlueggin sem hafa fundist en hópurinn notaðist við tvö sem tilheyrðu sitthvorri risaeðlutegundinni, önnur „agnarsmá“ á stærð við kind en hin svo stór að eggin ein og sér vógu um fjögur kíló.

Þroski steingerðu fóstranna var metinn með tövlusneiðmyndum og háþróuðum smásjárskoðunum og aldur fóstranna fundinn með því að telja tannhringi fóstranna. Tannhringir eru á pari við árhringi í trjám, nema tannhringirnir myndast daglega og því er hægt að meta hversu langan tíma fóstrið hefur fengið til að vaxa.

Útfrá þessu gat vísindahópurinn áætlað hversu mikið var eftir af fósturþroska risaeðlunnar og hversu langur útungunartíminn var þá. Fyrir minni risaeðlur hefur útungunartíminn sennilega verið um þrír mánuðir en fyrir þær stærri sex mánuðir. Þessi langi útungunartími hefur ekki skilað sér í arfleið til fuglanna því þeir sitja skemur á eggjum en forfeður sínir risaeðlurnar.

Með hraðri þróun tækja og hugbúnaðar sem notast má við í vísindum er vísindamönnum gert kleift að rannsaka hluti sem þessa. Niðurstöður sem þessar geta líka gefið okkur vísbendingar um hvað hefur leitt til útdauða tegundanna en það er t.d. ljóst að lengri útungunartími gerir dýrin útsettari fyrir rándýrum og arðræningjum. Það verður áhugavert að fylgjast með áframhaldandi atferlisrannsóknum á útdauðum tegunum.