Untitled

Skyndibitamatur hefur marga kosti. Hann er fljótlegur, þægilegur, bragðgóður og eru fjölmargir möguleikar í boði þegar við hreinlega nennum ekki að elda. Við vitum þó flest að hann er langt frá því að vera hollur. En hvaða áhrif hefur skyndibitaát á fólk sem ekki hefur aðgang að slíkri fæðu í sínu daglega lífi?

Rannsóknahópur við the University of Pittsburgh var forvitinn að vita einmitt þetta og prófuðu þeir að fá 20 Ameríkana sem borðuðu mikinn skyndibita til þess að skipta um mataræði í tvær vikur við 20 manns sem bjó á dreifbýlum svæðum Suður-Afríku. Rannsóknarniðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Nature Communications.

Á þessum stutta tíma urður miklar breytingar á lífmerkjum (e. biomarkers) sem gefa til kynna áhættuna á því að fá ristilkrabbamein. Í einstaklingunum sem skiptu yfir í skyndibitafæði fjölgaði lífmerkjum fyrir ristilkrabbameini en í Ameríkönunum fækkaði þeim.

Skýringuna má finna í því að fæða Suður-Afríkubúanna inniheldur mun meira magn af trefjum en skyndibitamatur sem inniheldur lítið af trefjum og mikið af próteinum úr dýraafurðum. Það kom þó á óvart hversu hratt áhrifin komu fram. Tekið skal fram að rannsóknin var ekki mjög stór og því þarf að fara varlega í það að draga ályktanir út frá niðurstöðunum. Niðurstöðurnar eru þó í samræmi við það sem við vitum nú þegar um samband slæms mataræðis og sjúkdóma.

Eins og staðan er í dag er talið að koma megi í veg fyrir allt að 1/3 af öllum tilfellum ristilkrabbameina með breytingum á mataræði og getur því síður en svo sakað að venja sig á að borða trefjaríka fæðu og takmarka skyndibitaátið.

Heimild: Science Alert